133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég veit ekki annað en þessi stærsti iðnskóli landsins, stærsti framhaldsskóli landsins, hafi gengið mjög vel. Aðalvandinn hefur verið fjárskortur, sem hefur einmitt verið eitt af vandamálunum hjá þessari ríkisstjórn, hve naumt fé hefur verið skammtað til starfsnámsins og það hefur komið hart niður á Iðnskólanum eins og öðrum.

Ég spyr ráðherrann: Ætlar ráðherra að láta þetta koma til framkvæmda nú í vor? Ætlar ráðherra að einkavæða Iðnskólann án þess að það komi til umræðu á þingi? Ráðherra verður að svara því hvort á að taka einn stærsta framhaldsskóla landsins og einkavæða hann bara af því að hæstv. ráðherra langar til að einkavæða skólann. Það verða að koma rök. Við krefjumst þess að málið komi inn á Alþingi og við ræðum það þar, en ráðherra fái ekki að ráðskast með stærsta framhaldsskóla landsins eins og hann sé hennar einkamál, frú forseti.