133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:17]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég held að þurfi ekki að vera neitt svona offors í þessu máli. Það er alveg ljóst að búið er að kynna málið öllum hlutaðeigandi sem að málinu koma. Kennarasamband Íslands er vel með á nótunum og hefur fylgst með málinu og mun verða áfram upplýst um það. Það sama gildir að sjálfsögðu um starfsmenn Iðnskólans í Reykjavík. Það er ekki komið að því að taka ákvörðun í málinu. En á hinn bóginn er alveg ljóst að ég og hv. þingmaður erum á öndverðum meiði. Ég er alveg sannfærð um að einkarekstur í skólakerfinu hefur leitt til farsældar fyrir allt skólasamfélagið. Við erum með góð dæmi um það hvort sem það er Landakotsskóli, Ísaksskóli, Fjöltækniskóli Íslands eða aðrir skólar.

Hins vegar er leiðarljósið í menntamálaráðuneytinu það að við skoðum ekki sameiningu bara til að sameina. Slík sameining verður að hafa í för með sér eflingu viðkomandi skóla, eflingu viðkomandi námsgreina og ef svo er þá ber okkur að sjálfsögðu skylda til að skoða þær hugmyndir sem leitt geta til þess að starfsnámið, sem okkur er öllum umhugað um, verði sterkara og betra en áður. En við viljum fá atvinnulífið mun sterkara inn í skólasamfélagið en verið hefur fram til þessa.