133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:11]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Eðlilegt er að umræður um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 blandist eitthvað samgönguáætlun fyrir 2007–2018 líkt og gerðist fyrir helgi þegar hin lengri var rædd. Ég verð að biðja virðulegan forseta að leyfa mér að blanda örlítið saman þeim áætlunum því að þannig var mál með vexti að ég gat því miður ekki tekið þátt í umræðunum sem voru hér síðasta fimmtudag en ég mun þó reyna að halda mér við útgangspunktinn í áætlun næstu fjögurra ára.

Ljóst er að með svo stórt og viðamikið plagg eins og hér er til umræðu skiptir máli að það sé trúverðugt. Því er eðlilegt að ýmsir hv. þingmenn hafi komið nokkuð inn á það að rifja upp söguna í þeim efnum. Þannig hefur þetta verið nokkur undanfarin kosningaár að fagrar áætlanir hafa litið dagsins ljós en því miður hefur ekki tekist að framkvæma þær eins og áætlanir hafa gert ráð fyrir. Það er mjög miður, sérstaklega í þessum málaflokki sem er svo mikilvægur og svo stór, í raun og veru sá málaflokkur sem við eigum að leggja hvað mesta áherslu á vegna þess að í öllum samanburði við aðrar þjóðir erum við hvað mest á eftir öðrum í samgöngumálum. Þess vegna er eðlilegt að hæstv. samgönguráðherra leggi á það mjög mikla áherslu, og ég þykist greina það í málflutningi hæstv. ráðherra að hann hefur sjálfur af því nokkrar áhyggjur að það muni ekki takast að standa algjörlega við þá áætlun sem hér er lögð fram af töluverðum metnaði. Hæstv. ráðherra hefur lent í því á undanförnum árum að þurfa að draga saman seglin vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið um það ákvarðanir. Ég trúi því vel að ekki sé öfundsvert fyrir hæstv. ráðherra að sitja undir slíkum ákvörðunum og þess vegna er trúverðugleiki samgönguáætlunar brenndur af sögunni, þ.e. að ekki hafi alltaf tekist að standa við áætlanirnar, því miður. Það er eðlilegt að fara örlítið yfir vinnubrögðin við gerð slíkrar áætlunar. Mikilvægt er þegar við erum að fjalla um svo stóran og mikinn málaflokk að reynt sé að ná sem víðtækastri samstöðu um slíka áætlun.

Ég tók eftir því í umræðunum síðasta fimmtudag að hæstv. ráðherra sagði að hann hefði valið það vinnulag sem nú er vegna reynslu sinnar af því vinnulagi sem áður var. Ég tek hæstv. ráðherra fyllilega trúanlegan, því að ég hef ekki reynslu af því vinnulagi sem áður var, sem hæstv. ráðherra taldi hafa ýmsa galla, og ég efast ekki um að svo hafi verið, varla hefur það verið fullkomið. En ég tel að ekki sé endilega búið að finna hina réttustu leið til að vinna slíka áætlun. Ég hefði haldið t.d. að eðlilegra hefði verið þegar áætlunin kom úr — eigum að segja sérfræðinganefndinni — og fór til hæstv. ráðherra og síðan í þingflokka ríkisstjórnarinnar, að þá hefði verið eðlilegt á þeim tímapunkti að gerð hefði verið tilraun til að ná víðtækari samstöðu, þ.e. að þá ættu allir þingflokkar aðkomu að málinu. Það væri líka trúverðugra ef allir hefðu komið að málinu og við náð sameiginlegri niðurstöðu. Þá skipti raunverulega ekki svo miklu máli þó að ríkisstjórnarskipti yrðu á milli, því þá væru allir að því leytinu til tengdir áætluninni.

Hv. þm. Halldór Blöndal fór í sögulegri upprifjun yfir það hvað oft samgönguáætlun hefði verið marklítið plagg, af ýmsum ástæðum. Ég ætla ekki að fara að eyða tíma mínum í að rifja það upp en hv. þingmaður talaði af mikilli reynslu, bæði sem fyrrverandi ráðherra og maður sem setið hefur mjög lengi á þingi. Það voru vissulega aðvörunarorð sem menn eiga að hlusta á. Ég tel að með því að þróa vinnubrögðin væri hægt að tryggja sem mesta samstöðu um málið.

Frú forseti. Ég sagði að hæstv. ráðherra hefði á stundum sagt, bæði í þinginu og ég tala nú ekki um í viðtali, sem er á margan hátt býsna gott, í Morgunblaðinu síðasta fimmtudag, þar sem hæstv. ráðherra fer m.a. yfir þetta mikilvæga plagg og leggur gífurlega mikla áherslu á að nú sé komið tímabil stórátaks í samgöngumálum. Ég vil taka alveg sérstaklega undir þetta með hæstv. ráðherra. Þetta er auðvitað gífurlega mikilvægt og þetta er hlutur sem á að hafa forgang á ýmislegt annað.

Hins vegar er sérkennilegt að sjá það haft eftir hæstv. ráðherra að ástæðan fyrir því m.a. að ekki hafi verið hægt að standa við síðustu samgönguáætlun og að draga hafi þurft saman seglin sé, eins og sagt er orðrétt, með leyfi forseta: „… að hægja á ferðinni vegna áhrifa af uppbyggingu stóriðjunnar.“

Ég verð að segja, frú forseti, að það kom mér mjög á óvart að hæstv. ráðherra skyldi fara í þetta skjólið, fara í sama málflutning og við höfum heyrt Vinstri græna fara yfir, að allur vandi okkar í efnahagsmálum sé stóriðjuframkvæmdunum að kenna.

Ég vil leyfa mér, frú forseti, að mótmæla þessu. Ég tel að þenslan á allt öðrum sviðum hafi haft miklu meiri áhrif sem kallað hafi á að menn hafi gripið til þessara ráða heldur en stóriðjuframkvæmdirnar. Í rauninni lá það fyrir allan tímann hvaða áhrif stóriðjuframkvæmdirnar mundu hafa og ef eitthvað er hafa áhrifin verið minni á efnahagslífið en menn gerðu ráð fyrir. Þess vegna á ekki að þurfa að að grípa til slíks rökstuðnings.

Frú forseti. Þröngt er skorinn stakkurinn í ræðutíma hér og ég verð því að stikla mjög á stóru og ætla að fara aðeins yfir misræmi sem ég hef orðið var við í texta og tillöguflutningi. Þar á ég við jarðgöng. Rétt er að eyða nokkrum orðum í að fagna alveg sérstaklega þeirri stefnubreytingu sem hefur orðið á því að binda sig ekki við að eingöngu séu ein jarðgöng í gangi í einu heldur á nú að tvöfalda það og hafa a.m.k. tvenn í gangi í einu. Það er fagnaðarefni og það meira að segja svo að jafnvel þrenn verða í gangi í einu ef fram heldur sem horfir. Þetta tel ég auðvitað afar mikilvægt og fagna því að svo sé gert.

Síðan er rétt að fagna því líka að nú virðist vera á öllum landsvæðum kominn mikill áhugi fyrir jarðgöngum. Við heyrum það á höfuðborgarsvæðinu að rætt er mikið um að Sundabraut fari að hluta til í jarðgöng, talað er um jarðgöng undir Öskjuhlíð. Það er mikið fagnaðarefni að umræðan sé komin á þetta stig og að meginhluti þjóðarinnar sé búinn að átta sig á hversu jarðgöng eru mikilvægar framkvæmdir í samgöngubótum.

Misræmið, frú forseti, sem ég ætlaði að vekja athygli á er að í langtímaáætluninni segir:

„Rannsóknir, hönnun og annar undirbúningur Norðfjarðarganga fer fram 2007 og 2008 og verða göngin boðin út á árinu 2009.“

Síðan þegar fjármagnsstreymið er skoðað til þeirra framkvæmda kemur í ljós að engir fjármunir eru til framkvæmdarinnar fyrr en 2011. Nauðsynlegt er, frú forseti, að hæstv. ráðherra skýri það hvernig á að brúa bilið frá því að göngin verða boðin út 2009 en ekkert fjármagn komi fyrr en 2011. Og hvers vegna sama orðalag er ekki notað varðandi Norðfjarðargöng og notað er varðandi tengingu Óshlíðarganga og síðan þeirra ganga á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, þ.e. að þau göng, Arnarfjarðargöngin svokölluðu, eigi að hefjast strax að lokinni vinnu við Óshlíðargöng. Hvers vegna er ekki notað nákvæmlega sama orðalag varðandi það að Norðfjarðargöngin eigi að hefjast strax að loknum framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng, sem er hugsunin? Ef ég man rétt úr viðtali við hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu, þá eiginlega kemur fram að þannig sé þetta hugsað. Hér þarf því að skýra texta eða a.m.k. að samgöngunefnd fari þá almennilega yfir málið og skýri það betur hvernig brúa eigi bilið þarna á milli eða að hæstv. ráðherra skýri hvort einhverjar setningar hafi dottið út úr textanum.

Frú forseti. Tími minn er búinn og ég verð því (Forseti hringir.) að ljúka máli mínu en verð að óska eftir að fá orðið aftur því að ég hef ekki nándar nærri lokið umfjöllun minni.