133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[17:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki tilefni til mikilla svara svo sem af minni hálfu nema að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vekja athygli mína á þessari töflu og okkar annarra hér. Ég hafði ekki séð hana en hún fellur ákaflega vel að þeirri tilfinningu sem ég hef haft og ég vitnaði einmitt til norðurkjördæmanna, að þar væru tengivegir og reyndar landsvegir geysilega miklir og út úr því kemur auðvitað þetta langa vegakerfi upp á rúma 5.000 km í Norðvesturkjördæmi og rúma 4.000 km í Norðausturkjördæmi og það passar prýðilega við það að þarna eru enn gríðarlega mikil óunnin verkefni í almennri vegagerð. Ég leyfi mér að fullyrða líka, bara miðað við staðþekkingu á Suðurlandi, að á Suðurlandsundirlendinu eru menn miklu lengra á veg komnir með að byggja þessa vegi upp og leggja þá bundnu slitlagi. Það er ólíku saman að jafna í uppsýslum, bæði Árnes- og Rangárvallasýslu borið saman við það sem er almennt reglan t.d. á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, þar sem vegir eru almennt malarvegir, því miður, enn þá. Það eru rétt allra umferðarþyngstu vegirnir inn frá Akureyri og aðeins í Svarfaðardal sem komnir eru með slitlagi, annars má heita reglan að þeir vegir séu malarvegir á þeim aldri sem ég tilgreindi. Þarna eru því gríðarleg verkefni sem skiptir sköpum að takist að ráðast í. Það er ekki bara fyrir sveitabæi og byggð á þessum stöðum heldur er vaxandi ferðamannastraumur og vaxandi orlofshúsabyggð o.fl. sem kallar á þetta yfir sumartímann og verður tilfinnanlegra með hverju árinu sem líður að hafa þá vegi í góðu ástandi.

Það verður líka að horfast í augu við þá staðreynd að fólk er almennt orðið miklu óvanara því en áður var að aka á malarvegum og umferðaröryggi kallar á að á þessu sé tekið alveg sérstaklega þess vegna. Það er bara þó nokkuð algengt að verða að fólk veigri sér við að fara út af bundnu slitlagi enda bílar ekki endilega til þess gerðir lengur sem fólk notar dagsdaglega. Það er því sama (Forseti hringir.) hvar borið er niður að allt ber þarna að sama brunni.