133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[18:33]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson áhugamanneskja um að koma flutningi af vegunum á sjó ef mögulegt er vegna þess að ég tel að það sé hagkvæmara fyrir umhverfið, betra fyrir umhverfið og öruggara fyrir okkur vegfarendur. Ég veit líka að það er ódýrara fyrir þá sem eru að flytja og þar með ætti það að vera ódýrara fyrir neytendur en kostar hins vegar, eins og hv. þingmaður benti á, stundum bið fyrir okkur neytendur. Það ætti hins vegar að vera allt í lagi svo framarlega sem við þurfum ekki að bíða eftir nýmeti.

Við hv. þingmenn eigum okkur samherja í þessari baráttu sem er Evrópusambandið, því að Evrópusambandið samþykkti nýlega, í desember, annan áfanga áætlunar sem heitir Marco Polo, sem miðar að því að færa flutning af vegunum á haf og vötn eftir því sem kostur er. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér þessa áætlun vegna þess að ég held að hún geti verið tæki í baráttunni fyrir hann og okkur saman og líka vegna þess að mér sýnist að ekki sé lögð sérstök áhersla á að kynna þessa áætlun á Íslandi. Ég tók eftir því að á heimasíðu þessarar áætlunar er t.d. vísað á tiltekinn aðila í Noregi, sem er líka aðili að þessu eins og Ísland, en það er ekki um slíkt að ræða á Íslandi. Þess vegna spyr ég hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér þessa áætlun.