133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:31]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað vilja allir vera heima hjá sér eins lengi og þeir geta. En ég verð að segja að ég er ekki viss um að fólk sem er komið inn á hjúkrunarheimilin eftir langa og erfiða bið í brýnni þörf átti sig alltaf á því hvort það geti verið heima. Að minnsta kosti getur það ekki verið heima með þá lélegu heimaþjónustu sem boðið er upp á hérna á höfuðborgarsvæðinu. Hún er ekki viðunandi og með þá þjónustu er ekki hægt að vera heima nema aðstandendur búi í sama húsi og hinn aldraði eða að þeir komi og hjálpi honum, þannig að hann geti verið heima. Þannig er ástandið í heimaþjónustunni á höfuðborgarsvæðinu núna. Það líður varla sá dagur að það hafi ekki einhverjir samband við mann út af því að þeir eru að gefast upp á því að vera með sína nánustu heima, jafnvel á biðlista, og eru að kikna undan þjónustuleysinu. Ég bendi á mjög vandaða umræðu sem var í Kastljósi sjónvarpsins fyrr í kvöld um alzheimersjúklinga og aðstandendur þeirra. Þar var talað við aðstandendur alzheimersjúklinga og kom mjög vel í ljós hve mikill skortur er á þjónustu við þann hóp. Það á örugglega eftir að koma enn betur í ljós enda kom það vel fram í umræðu sem við áttum hér í vetur að þar er víða pottur brotinn. En þetta tal allt saman um það að fólk geti verið lengur heima, það getur ekki verið lengur heima nema það fái viðunandi þjónustu og hún er ekki til staðar í dag, a.m.k. ekki í Reykjavík og ekki á höfuðborgarsvæðinu.