133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra, enda gat ég þess í ræðu minni að frumvarpið lyti eingöngu að því að verið væri að tala um tollkvóta. Engu að síður snýst það á hinn bóginn um vörur sem ætlaðar eru fyrir neytendur og þess vegna eðlilegt að kröfur sem gerðar eru almennt til slíkra vara séu þá líka ræddar. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að breyta undanþáguákvæðum eða því ákvæði í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem felur í sér að Ísland verði ekki aðili að innri markaði Evrópu hvað verslun með dýr og dýraafurðir viðvíkur. Ég fagna því, það hefur verið þrýstingur á að því verði breytt sem við þekkjum báðir, ég og hæstv. ráðherra. Það er gott að staðinn er vörður um það.

Ég ítreka hversu mikilvægt er að standa vörð um það að gera sömu kröfur og ekki minni kröfur til hollustu, heilbrigðis og uppruna þeirra landbúnaðarvara sem við flytjum inn en þeirra sem við framleiðum hér á landi og ég held að það verði seint sem við ítrekum þær kröfur nógu mikið.