133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[19:03]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2005 frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi tillögur um breytingar á fjárheimildum og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok. Enn fremur var óskað eftir áliti frá Ríkisendurskoðun.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til 934,6 millj. kr. hækkun fjárheimilda vegna frávika ríkistekna frá áætlun fjárlaga. Í 2. gr. er lagt til að niður falli 1.848 millj. kr. gjöld umfram heimildir.

Heildarfjárheimildir ársins námu 327,7 milljörðum kr. en útgjöld samkvæmt reikningi urðu 308,4 milljarðar kr. Fjárheimildastaða í árslok er því jákvæð um 19,3 milljarða kr. nettó.

Fyrsti minni hluti leggur til nokkrar breytingar við frumvarpið til frekari samræmingar við niðurstöður ríkisreiknings fyrir árið 2005 og leiða breytingarnar annars vegar til 1,7 millj. kr. lækkunar á fjárheimildum og hins vegar 33,7 millj. kr. nettóaukningar á stöðum fjárheimilda sem falla niður í árslok. Fjármögnunarliðurinn Innheimt af ríkistekjum, lækkar um 1,7 millj. kr. en framlag ríkissjóðs breytist ekki.

Í nefndarálitinu fylgja skýringar á breytingartillögum frá 1. minni hluta og sé ég ekki ástæðu til að lesa þær upp.

Undir nefndarálitið rita Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Gunnar Örlygsson.