133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali.

80. mál
[19:11]
Hlusta

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir máli sem lagt var fram af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í október sl. Nú er ekki nema um hálfur mánuður þangað til þingstörfum lýkur og sannarlega kominn tími til að þetta mál, sem er mjög mikilvægt að okkar mati, sé tekið hér á dagskrá. Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um að Alþingi feli ríkisstjórninni að fullgilda samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem undirritaður var í Varsjá í Póllandi 16. maí 2005. Þetta er samningur sem Evrópuráðið hefur lagt mikla áherslu á að þjóðþingin fjalli um og afgreiði og vegna þess að þetta mál hefur ekki komið fram frá hæstv. ríkisstjórn og þar sem ég sit þing Evrópuráðsins vildi ég a.m.k. leggja það fram til að vekja athygli á þessum mikilvæga samningi.

Mansal er gríðarlegt vandamál í Evrópu. Árlega eru þúsundir manna, aðallega ungar konur og börn, seldar mansali og neyddar út í kynlífsþrælkun og vændi eða aðra nauðungarvinnu. Þessi þrælasala nútímans á sér stað jafnt milli landa sem innan þeirra. Skipulagðir glæpahringir standa að baki mansali í Evrópu og að mati Europol er mansal þriðja ábatasamasta starfsemi alþjóðlegra glæpahringja á eftir fíkniefnasölu og vopnaviðskiptum.

Eins og með aðra ólöglega starfsemi er erfitt að meta umfang mansals en um tvennt í málinu eru sérfræðingar og sérfræðistofnanir sammála, þ.e. að við erum ekki að tala um þúsundir eða tugþúsundir heldur hundruð þúsunda fórnarlamba á hverju ári og sú tala vex frá ári til árs. Þekktasta birtingarmynd þessa vanda er innflutningur á ungum stúlkum frá Austur-Evrópu til ríkari landa vestar í álfunni. Oftar en ekki eru þessar stúlkur lokkaðar frá heimalöndum sínum með loforðum um starf og betra líf en eru svo hnepptar í kynlífsánauð og þvingaðar út í vændi. Skemmst er að minnast þess að tugþúsundir ungra kvenna voru seldar mansali til Þýskalands til kynlífsþrælkunar á meðan á HM í knattspyrnu stóð síðastliðið sumar. Við þurfum ekki einu sinni að leita dæma í stórum viðburðum á íþróttasviði, t.d. er merkjanleg aukning í götuvændi ungra kvenna og ungra karla í Strassborg þær vikur sem Evrópuþingið og Evrópuráðið koma saman þar í borg.

Það er auðvitað þyngra en tárum taki að hugsa til þess að þeir aðilar sem eiga að leiða baráttuna gegn mansali sæki í kynlífsþjónustu hjá fórnarlömbunum en það er því miður ýmislegt sem bendir til þess, því að vændi þrífst ekki ef ekki er eftirspurn.

Baráttan gegn mansali er nú háð af auknum þunga á alþjóðavettvangi. Hér er um að ræða einhverja verstu skuggahlið hnattvæðingar og opinna landamæra sem ógnar mannréttindum og öðrum grunngildum lýðræðislegra samfélaga. Til þess að baráttan skili árangri þarf að leggja áherslu á verndun mannréttinda fórnarlamba, sækja skipuleggjendur til saka og jafnframt að samþætta löggjöf ríkja um mansal.

Hinni svokölluðu Palermó-bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi frá 15. nóvember 2000 er beint gegn mansali. Bókuninni er ætlað að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Bókunin er grunnur alþjóðlegs samstarfs gegn mansali þar sem hún inniheldur fyrstu skilgreininguna á mansali sem alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um. Í því sambandi er mikilvægt að gerður sé skýr greinarmunur á mansali annars vegar og smygli á fólki hins vegar. Tilgangur smygls á fólki er að flytja það ólöglega yfir landamæri til að fá beina eða óbeina efnahagslega umbun. Í mansali felst hins vegar flutningur, vistun eða móttaka einstaklinga sem með ógnum, valdbeitingu eða öðrum kúgunaraðferðum, svikum og blekkingum eru hagnýttar í þágu geranda. Hagnýting felst oft í þvinguðu vændi eða öðrum kynferðislegum tilgangi, nauðungarvinnu, þrældómi eða brottnámi líffæra. Samningurinn og bókunin voru undirrituð af Íslands hálfu 13. desember 2000, en hafa ekki verið fullgilt.

Virðulegi forseti. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um hugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, réttarríkið og lýðræði. Þar sem mansal grefur undan grunngildum Evrópuráðsins um mannlega reisn hefur ráðið lagt ríka áherslu á baráttuna gegn mansali í starfi sínu og verið í fararbroddi á alþjóðavettvangi í þeirri baráttu. Þessi vandi snýr sérstaklega að ráðinu því á meðal aðildarríkjanna 46 er að finna ríki sem eru viðtökulönd jafnt sem upprunalönd fólks sem selt er mansali auk ríkja þar sem fórnarlömb hafa viðkomu á leið sinni til viðtökulands.

Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali var samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Bakgrunnur hans er sá að ráðið taldi nauðsynlegt að semja bindandi samning sem tæki einkum til verndunar fórnarlamba mansals og tryggði mannréttindi þeirra jafnframt því sem gerendur yrðu saksóttir. Í samanburði við Palermó-bókunina, eða aðra alþjóðasamninga til höfuðs mansali, gengur sáttmáli Evrópuráðsins skrefi lengra í ákvæðum um verndun fórnarlamba. Tekið er fram að samningnum er ekki ætlað að keppa við eða leysa af hólmi fyrri alþjóðasamninga á þessu sviði heldur auka og þróa þá verndun sem þeir veita fórnarlömbum mansals. Bent er á að oft er auðveldara að ná samkomulagi með svæðisbundnum samningum, eins og innan Evrópuráðsins, en þegar nauðsynlegt er að sætta sjónarmið ríkja með ólík stjórnkerfi og gildi, eins og á við samningagerð á vegum Sameinuðu þjóðanna. Vægi og nýbreytni samninga Evrópuráðsins felst í fyrsta lagi í staðfestingu þess að mansal sé brot á mannréttindum og ógn við mannlega reisn og að aukinnar lagalegrar verndar sé því þörf fyrir fórnarlömb mansals. Í öðru lagi nær samningurinn til hvers konar mansals, hvort sem það er innan lands eða milli landa og hvort sem það tengist skipulagðri glæpastarfsemi eða ekki, og tekur til hvers konar misnotkunar, svo sem kynlífsþrælkunar, nauðungarvinnu o.s.frv. Í þriðja lagi er með samningnum komið á fót eftirlitskerfi til að tryggja að aðilar sáttmálans framfylgi ákvæðum hans á skilvirkan hátt. Í fjórða lagi er í samningnum lögð áhersla á að jafnrétti kynjanna sé ætíð í forgrunni.

Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar með þingsályktunartillögunni þar sem gefið er stutt yfirlit yfir efni samningsins.

Virðulegi forseti. Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali var eins og fyrr sagði samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu sáttmálann sama dag en við þurfum að fullgilda hann. Samningurinn liggur til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins, ríki utan ráðsins sem tóku þátt í samningu hans og Evrópusambandið. Samningurinn öðlast gildi þegar tíu ríki hafa fullgilt hann, þar á meðal a.m.k. átta aðildarríki Evrópuráðsins. Þegar sú sem hér stendur lagði fram þingsályktunartillöguna í október sl. höfðu 31 ríki undirritað samninginn og tvö þeirra, Moldóva og Rúmenía, jafnframt fullgilt hann. Síðan þá hefur Austurríki fullgilt samninginn og fyrir stuttu síðan lýsti Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, því yfir að Bretland mundi undirrita samninginn innan skamms og vonandi fullgilda hann.

Okkur þingmönnum sem sitjum á Evrópuráðsþinginu finnst sem fullgilding samningsins gangi frekar hægt. Mansal fer vaxandi og við teljum einkar brýnt að sporna gegn þeirri þróun og að samningurinn sé mikilvægt tæki til þess. Því hafa þingmenn Evrópuráðsins hafið átak í því að þrýsta á um samþykkt og fullgildingu samningsins í sínum þjóðþingum líkt og hér er gert. Af því tilefni hefur verið gefin út sérstök handbók um samninginn og baráttu þingmanna fyrir honum. Ísland hefur ekki síður en önnur ríki Evrópuráðsins skyldu til þess að sporna gegn þeirri ógeðfelldu þróun sem orðið hefur á undanförnum árum með auknu mansali og þar með aukningu í grófustu mannréttindabrotum og ofbeldi gegn fátækum konum og börnum. Við höfum staðfest dæmi löggæsluyfirvalda um mansal hingað til lands. Með því að vinna hratt og örugglega að fullgildingu sáttmálans um aðgerðir gegn mansali öxlum við okkar ábyrgð í samfélagi Evrópuþjóða, eflum viðbúnað okkar til þess að taka á þessari ógeðfelldu glæpastarfsemi og sendum síðast en ekki síst frá okkur skýr skilaboð, við líðum ekki mansal hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari tillagan til umfjöllunar og afgreiðslu í allsherjarnefnd.

Í tilefni af því að til stendur að klámiðnaður Evrópu komi hingað til lands og haldi ráðstefnu um iðnað sinn fyndist mér viðeigandi að þingið afgreiddi þessa áskorun á ríkisstjórnina um að fullgilda samning Evrópuráðsins nú þegar.