133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[13:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það dylst ekki að mikil almenn og enn vaxandi andstaða er við stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna er engu að síður keyrð áfram af fullri hörku og allt tal framsóknarmanna um þjóðarsátt eru hrein öfugmæli og eiga góða möguleika á því að verða öfugmæli 21. aldarinnar númer eitt.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur alveg hreina afstöðu í þessu máli. Við höfnum öllum frekari stóriðju- og virkjunarframkvæmdum og viljum að náttúran fái nú grið og að efnahagslífið og vinnumarkaðurinn fái tíma til að jafna sig.

Varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár til að framleiða rafmagn fyrir stækkun álvers í Straumsvík í útjaðri höfuðborgarsvæðisins þá er það fráleit framkvæmd í alla staði, fráleit framkvæmd bæði hvað virkjanirnar og stækkun iðjuversins á þeim stað snertir. Þegar hönnun virkjananna þriggja í stað tveggja í neðri hluta Þjórsár liggur nú fyrir með þremur stórum uppistöðulónum er ljóst að umhverfisáhrif þeirra eru miklum mun tilfinnanlegri en mönnum voru áður ljós. Þess vegna eflist nú andstaða dag frá degi heima í héraði gegn þessum virkjunum þegar við blasir að fjölmargar bújarðir skerðast verulega eða verða ónýtar og öll ásýnd svæðisins versnar til mikilla muna.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum heimamenn alfarið í baráttu þeirra við að fá þessar virkjanir stöðvaðar eins og við styðjum þá íbúa Hafnarfjarðar sem vilja fella stækkun álversins í Straumsvík. Framganga Landsvirkjunar í þessu máli, í skjóli ríkisvaldsins og fjármálaráðherra, er svo sérkapítuli. Ég hef lagt fram um það sérstaka fyrirspurn hvort hæstv. ráðherra hyggist ekki gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að hætta þessum undirbúningi við þessar aðstæður. Það er alger ósvinna og ég tek undir það með hv. málshefjanda að það á auðvitað ekki að líða það að opinbert fyrirtæki þjösnist á mönnum með þeim hætti sem Landsvirkjun er nú að gera á landeigendum og heimamönnum á Suðurlandi.