133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál sem við erum að ræða hér, atvinnuþróunarmál í Ísafjarðarbæ. Þetta er því miður ekki eina málið sem við erum að fást við. Við stöndum líka frammi fyrir því að færa eigi eignarbönd Orkubús Vestfjarða til Landsvirkjunar. Það er því margt, því miður, á eina bókina lært í þessari þróun.

Við stöndum frammi fyrir því núna að við erum að horfa á fyrirtæki sem við töldum að gæti verið burðarás í tækniframförum á Vestfjörðum, Marel, sem áður var fyrirtæki Póls hf., sem var þróað í sjávarútvegsumhverfi Vestfjarða meðan það var öflugt og sterkt, sem náði ákveðinni fótfestu og sameinaðist undir merki Marels fyrir nokkrum árum. Það að við erum að missa slíkt fyrirtæki af svæðinu er sorglegt. Önnur fyrirtæki sem hafa verið í iðnaði á Vestfjörðum hafa borið sig illa undan því að dýrt væri að vera með atvinnurekstur og vera með markaðinn annars staðar og þar kemur flutningskostnaðurinn inn í og önnur aðstaða sem snýr að stjórnvöldum.

Þróunin á Vestfjörðum hefur því miður verið sú á undanförnum árum að þar hefur orðið tekjusamdráttur og veruleg fólksfækkun. Því miður er það ekki einsdæmi í kjördæmi okkar að þetta sé bara á Vestfjörðum, þetta er einnig annars staðar í kjördæminu eins og á Norðvesturlandi og í Dölum. Það er því að mörgu að hyggja, hæstv. forseti. Við höfum af því miklar áhyggjur þegar slík þróun á sér stað, að við erum að missa burtu sprota sem ef til vill hefðu getað hlaðið í kringum sig og eflt atvinnulífið í fjórðungnum, sérstaklega með tilliti til þess hvað sjávarútvegurinn hefur dregist saman á undanförnum árum og við höfum misst mikið af aflaheimildum. Hér er um mjög alvarlega stöðu að ræða sem við þurfum að reyna að taka á sameiginlega.