133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:17]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka upp málefni heilabilaðra á þinginu þar sem við eigum svo sannarlega að ræða þau málefni.

Eins og við öll vitum hafa á undanförnum árum orðið miklar framfarir á þessu sviði þar sem við höfum lagt áherslu á aukin úrræði, sérstök úrræði til handa þessum hópi, aukna áherslu á hvíldarinnlagnir og aukna áherslu á dagvistina og sömuleiðis heimahjúkrun þó að það komi kannski þessum hópi ekki sérstaklega við.

Það er athyglisvert þegar maður skoðar þann fjölda rýma sem við höfum yfir að ráða, hjúkrunarrýma í landinu, sem eru um 2.554, að 65% af þeim, um 1.660, eru notuð fyrir fólk sem hefur greiningar alzheimers eða heilabilunar.

Talið er að úr þessum hópi þurfi 15–20% á sérstökum rýmum að halda. Þau rými eru í dag 362 en ef maður skoðaði bara töluna sem þarna er, 15–20% af þessum hópi, 1.660 manns, eru það 332. Við höfum því á fleiri sérhæfðum rýmum að skipa en samt er biðlisti. Þetta er nokkuð sem við þurfum að fara vandlega yfir. Fram undan er síðan, eins og ráðherrann kom inn á í svari sínu hérna í byrjun, aukning um tæp 20% hvað varðar rýmin, og 20% varðandi dagvistunina.

Auðvitað er það verkefni okkar að halda áfram uppbyggingu sérhæfðrar þjónustu til handa alzheimersjúklingum og minnissjúklingum og það er mikilvægt að halda því til haga. Um leið er þá ástæða til að halda því til haga sem hér er búið að gera.

Mig langar rétt í lokin, frú forseti, til að nefna hér að við þingmenn fáum oft persónuleg erindi fólks til okkar. Það er auðvitað okkar sem þingmanna þessarar þjóðar að sinna þeim en ég hlýt samt að taka það upp hér að mér finnst sérstakt þegar við tökum sérstaklega fyrir málefni einstaklinga hér. (Gripið fram í.) Já, en málið var þannig lagt upp, hv. þingmaður, að við vorum að tala hérna um einstaklingsdæmi og við hljótum alltaf að þurfa að ræða út frá almennum forsendum. Það finnst mér ráðherrann hafa gert og (Forseti hringir.) við eigum að gera það í umræðunni.