133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:20]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að hefja máls á vandamáli minnissjúkra eða alzheimersjúklinga. Þetta er hópur sem hefur lent í hörmulegum örlögum. Þetta er mjög slæmur sjúkdómur, sérstaklega fyrir aðstandendur og alla sem eru í kringum hinn sjúka.

Það er líka vandamál við þennan sjúkdóm að hann er oft ekki stöðugur. Hann kemur og fer sem oft og tíðum er enn þá verra fyrir sjúklinginn sem veit þá öðru hverju af sér, og man, og svo hitt kastið ekki.

Þess vegna er mjög brýnt að taka á vandamálum þessa fólks og ég fellst á það með hv. þingmanni að betur megi gera í að upplýsa menn. Það er kannski einmitt skýring á okkar kerfi sem er því miður orðið allt of flókið og allt of illa upplýsandi að fólk skuli fá bréf sem nánast ekkert stendur í til útskýringar.

Auðvitað eiga þessar reglur að vera skýrar og bréf þannig orðuð að fólk geti skilið það sem í þeim stendur. Það er eitt sem við þurfum að gera stórátak í að bæta. Það heyrum við víða.

En það er líka spurningin um betra skipulag, að menn séu með betra skipulag og nýti þau rými sem til staðar eru og reyni að vinna á biðlistum sem mest þannig að fólkið fái sem besta aðhlynningu, hvort sem er með hjúkrun í heimahúsum, ef það er hægt, eða á hjúkrunarheimilum. Oft og tíðum er þetta fólk jafnvel í mjög dýrum sjúkrahúsplássum sem ekki er endilega þörf á, að hafa heilt háskólasjúkrahús á bak við sig.

Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur fyrir að taka þetta mál upp.