133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ætli það yrðu ekki heldur fleiri sem þá kæmi fram í dagsljósið að hefðu starfað fyrir CIA? Má ég rifja upp að háttsettur leyniþjónustuforingi frá Sovétríkjunum, sem flúði yfir til Vesturlanda og var talinn trúverðugur, nefndi sérstaklega háttsettan stjórnmálamann, ekki á nafn, í tilteknum öflugum stjórnmálaflokki ásamt öðrum sem hefði nú verið hvað mesta þarfaþingið í þeirri þokkalegu iðju.

Hv. þingmaður varpaði til mín spurningum sem vörðuðu persónuvernd. Við áttum töluverðar umræður um þetta, við nefndarmenn í kaldastríðsnefndinni. Ég hugsaði með svipuðum hætti og hv. þingmaður var að feta sig eftir áðan en sannfærðist um að rök nefndarmanna ættu fullkominn rétt á sér, þ.e. það ber að nálgast þetta út frá sjónarmiði persónuverndar. Þeir sem eru á þessum skrám og ekki vilja að nafn þeirra verði gert uppskátt eiga að fá að njóta þeirra leyndar. En ég tek það fram að sú leynd nær ekki lengur en fram að andláti þeirra. Það er nú þannig. Þá er enginn sem getur fyrir þeirra hönd hafnað því að þetta komi fram. Þannig að það er nú skammgóður vermir þetta líf í því efni enda sennilega sumir nokkuð teknir að hníga að aldri eins og sá hv. þingmaður sem hér reskist nú óðum í ræðustóli.

Það sem mér finnst hins vegar skipta máli í þessu er ótti Sjálfstæðisflokksins við að málið verði rannsakað með norsku leiðinni. Sá kvíðbogi sem þeir virðast bera fyrir því getur ekki annað en leitt til þeirrar ályktunar að þeir séu hræddir við eitthvað sem komi fram. Það er fullkomlega eðlilegt. Þetta er leyniþjónusta sem hér var starfandi að sögn Þórs Whiteheads og samkvæmt lýsingu hans var fullkomlega áratugum saman undir stjórn þeirra. Þeir héldu vitneskjunni um hana frá þinginu, frá öðrum stjórnmálamönnum, létu njósna um aðra stjórnmálamenn. Og þeir höfðu meira að segja sjóði sem þeir földu í Stjórnarráðinu til þess að kosta þetta. Ég skil vel að þessir menn séu skíthræddir. Ég mundi vera það í þeirra (Forseti hringir.) sporum.