133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:40]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið sögð um jafnréttismálin og Vinstri græna. Ég vil líka bæta Samfylkingunni við. Báðir þessir flokkar eru í því núna að sleikja upp Sjálfstæðisflokkinn og vonast til þess að komast í ríkisstjórn með honum. Þetta hafa allir séð sem fylgjast með stjórnmálum. [Hlátrasköll í þingsal.] (Forseti hringir.) (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn …

(Forseti (JónK): Ég vil biðja hv. þingmenn um að hafa hljóð í salnum og stilla frammíköllum í hóf, bæði hjá þessum ræðumanni og öðrum.)

Ég skal orða það öðruvísi fyrst hv. þingmenn þola ekki að heyra þetta: Þeir gera hosur sínar grænar fyrir Sjálfstæðisflokknum en það er þannig að báðir þessir flokkar þykjast ætla að hafa jafnt hlutfall kvenna og karla í ríkisstjórn. Ef við skoðum hverjir leiða í kjördæmunum sex hjá þessum flokkum er það ein kona sem leiðir hjá Samfylkingunni, það er bara hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. (Gripið fram í: Er það eitthvað „bara“?) Það er bara, já. Hjá Vinstri grænum leiða tvær konur, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Katrín Jakobsdóttir sem er oddviti lista þar. Þetta er úrvalið.

Það eru karlar sem leiða alla hina listana, og ég bara spyr: Hvernig í ósköpunum þykjast þessir tveir flokkar vera trúverðugir þegar þeir segjast ætla að hafa jafnt kynjahlutfall í ríkisstjórn? Segjum að þessir flokkar komist í ríkisstjórn og fái 5–6 ráðherra, við erum svolítið örlát á sætin. Ætla þá karlarnir sem eru oddvitar og hafa verið valdir í prófkjörum af sínum flokkum að sitja hjá (Gripið fram í: Össur gerir það.) og hleypa konunum að? Það hefur ekki verið gert hingað til. Einungis Framsóknarflokkurinn er trúverðugur (Forseti hringir.) í þessu, hann er með þrjár konur sem oddvita og þrjá karla. (Forseti hringir.) Hjá okkur er kynjahlutfallið jafnt. Það erum við sem getum haldið uppi merki kvenna í ríkisstjórn. (Gripið fram í: … komast á þing.)