133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er nú misskilningur hjá hv. þingmanni sem hér talaði síðast að þetta snúist um einhvern prúttmarkað. Það kann vel að vera að þannig sé það í samningum hjá Sjálfstæðisflokknum en það gildir ekki um okkur. Við setjum ekki verðmiða, hv. þingmaður, á málefni okkar þegar við erum að semja um þau.

Mér fannst þessi umræða fara mjög vel af stað hjá framsóknarmönnum og mikið er nú gott að ég skyldi geta glatt þá svona með bút í ræðu minni og hjálpað upp á móralinn. Að slepptri kannski einni ræðu frá þeim var þetta virkilega ánægjulegt að verða þess vitni hvað svona einn lítill kafli í ræðu getur gert mikið gagn.

Ég var ósköp einfaldlega að vekja athygli á því sem er staðreynd, að tveir flokkar fyrst og fremst munu sjá til þess að hlutur kynja verði jafn á framboðslistum þeirra, það gildir um Framsókn hvað varðar efstu sætin og okkur hvað varðar framboðslistana í heild. (Gripið fram í.) Því er það þannig að ef tekin eru t.d. fyrstu sætin stendur Framsókn þar mjög vel að vígi, ef tekin eru sæti 1–2, 1–3 eða 1–4 þá hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð vinninginn þannig að það er sama hvernig kosningar fara hvað okkur varðar, hvort þingmennirnir verða tíu, tólf eða fimmtán, að hlutur kynja verður jafn.

Varðandi Framsókn er sennilega best að þeir fái bara einn mann í hverju kjördæmi. Þá eru hlutföllin best hjá þeim, þannig að það sígur á ógæfuhliðina ef Framsókn fær (Gripið fram í.) meira en sex þingmenn. Að öðru leyti verð ég að segja eins og er að það er auðvitað stórkostleg gamansemi hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að koma hér upp og kvarta undan því að aðrir flokkar tali of hlýlega um Sjálfstæðisflokkinn, stórkostleg gamansemi.