133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf og samkeppnishæfa búsetu um allt land. Við viljum vera ein þjóð í okkar ágæta landi þar sem allir eiga sama rétt og sömu tækifæri en það er ekki svo.

Fólki og fyrirtækjum er mismunað eftir búsetu og það af stjórnvöldum. Einkavæðing þjónustustofnana eins og t.d. Símans kemur mjög hart niður á dreifbýlinu, bæði í hærri gjöldum, skertri þjónustu og lokun starfsstöðva. Lokun starfsstöðva á Sauðárkróki, Blönduósi, Ísafirði og víðar.

Það getur verið svo sem gott og blessað að skilgreina einhverja staði sem landshlutakjarna eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom hér inn á. Nú er það svo að Akureyri er skilgreindur landshlutakjarni, svo Ísafjörður og svo Reykjavík. Eða væntanlega er Reykjavík skilgreindur landshlutakjarni, er ekki svo?

Öll hin svæðin eru skilgreind sem einhvers konar fóðursvæði fyrir viðkomandi landshlutakjarna. En þetta er líka blekking. Tökum Ísafjörð. Íbúum Ísafjarðar hefur verið talin trú um að þeir væru landshlutakjarni. Því hefur á engan hátt verið fylgt eftir. Síður en svo. Vaxtarsamningar sem hæstv. ráðherra var að guma af eru svo lítilfjörlegir að meira að segja sveitarfélögin á Norðurlandi vestra neituðu að skrifa undir þann smánarsamning sem iðnaðarráðherra kynnti fyrir þeim. Þetta er það sem hann kallar byggðaaðgerð.

Hæstv. ráðherra minntist á flutningsjöfnunarkostnaðinn. Ráðherrann ætti að rifja upp loforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar um jöfnun flutningskostnaðar. Þau hafa ekki verið efnd á neinn hátt og sagt að stæðu föst í ríkisstjórninni.

Nei, herra forseti. Byggðamálin hafa svo stórkostlega verið vanrækt og þeir (Forseti hringir.) landshlutar, sérstaklega norðvestursvæðið mjög alvarlega vanrækt og (Forseti hringir.) það verður að gera stórátak í málefnum þessara byggða.