133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:16]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er að nafninu til um stöðu byggðarlaga utan landshlutakjarna. Kennitölur um þróun á síðasta ári eru þó þannig að það er ekki hægt að skipta landinu upp í tvennt með þessum hætti vegna þess að þróunin á landshlutakjörnunum er jafnslæm og verið hefur á undanförnum árum á þeim svæðum sem eru tilefni utandagskrárumræðunnar. Meira að segja á Akureyri var á síðasta ári staðan þannig að brottfluttir voru fleiri en aðfluttir. Menn hljóta að kalla eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að breyta þessu ástandi. Við trúum því að það sé ekki yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að fækka fólki á landsbyggðinni og fjölga því á höfuðborgarsvæðinu.

Ráðaleysi hæstv. ráðherra hér áðan veldur hins vegar miklum vonbrigðum. Þá voru engar tillögur, enginn kraftur, enginn vilji, aðeins skoða, athuga, heimsækja, ræða við — búið. Ef menn ætla að ná árangri sem við vitum að er hægt verða menn að hafa kraft í sér og dug til að grípa til aðgerða. Menn vita hvaða aðgerðir þarf. Menn vita að það þarf fé.

Við þekkjum á Austurlandi að aðgerðir í atvinnumálum eru það sem skiptir máli. Ef menn taka ekki á í atvinnumálum ná menn engum árangri. (Gripið fram í: … stóriðja.) Á landsbyggðinni er sjávarútvegurinn aðalatvinnugreinin. Það er atvinnugrein sem er bundin í fjötra, atvinnugrein sem býr við það kerfi að fyrirtækin hafa ekkert afl. Allt bolmagn þeirra fer í að greiða fyrir réttindin, hvort sem það er leigukvóti eða keyptur kvóti. Þessi fyrirtæki hafa engan kraft lengur til að leiða áfram þróun í atvinnulífinu eins og þau hafa gert á undanförnum áratugum. Þess vegna vatnar svona undan landsbyggðinni. (Forseti hringir.) Kerfisbreyting í höfuðatvinnugreininni verður að eiga sér stað, virðulegur forseti.