133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort er alvarlegra, að lækkun á skattlagningu á matvöru komi ekki að fullu til framkvæmda og skili sér ekki í vasa neytenda, eða hitt að þessi breytingartillaga okkar nái ekki fram að ganga. Ég skal ekki dæma um það. Ég tel að vísu að þessi breyting á skattlagningu óhollustunnar sé alvarlegri vegna þess að hún er til langframa. Hitt er til skemmri tíma.

Ég tek undir með hv. þingmanni, formanni þingflokks Samfylkingarinnar, að tvennu leyti. Það er mjög mikilvægt að samfélagið sameinist um að þrýsta á um að þessar skattalækkanir skili sér í vasa neytenda. Það er mjög mikilvægt. Þar ríður á að neytendasamtök, verkalýðssamtök og hver og einn fylgist með og sýni vörudreifendum aðhald.

Hitt er einnig mikilvægt, og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þá kröfu mína og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að hæstv. heilbrigðisráðherra komi og skýri fyrir okkur hvers vegna hún styður frumvarp sem gengur þvert á þá stofnun sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið og þar með hæstv. heilbrigðisráðherra. Hvernig í ósköpunum stendur á því að hæstv. heilbrigðisráðherra er tilbúinn að virða að vettugi eindregnar óskir sem koma frá Lýðheilsustöð í þessu efni?