133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði að hér væri á ferðinni svipað frumvarp og var til umfjöllunar í desember. Í reynd er þetta er þetta nákvæmlega sama frumvarpið vegna þess að þetta er tæknileg lagfæring á frumvarpi sem þá var lagt fyrir þingið og er ekki enn orðið að lögum. Við erum því að fjalla um sama málið en það gengur m.a. út á það að lækka skatta, virðisauka og vörugjöld á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum meira en á nokkra aðra matvöru í landinu. Þetta er mergurinn málsins.

Hv. þingmaður segir að hann vilji ekki stýra neyslu á matvöru eða vöru yfirleitt með sköttum en hvernig skyldi standa á því að gosdrykkjaframleiðendur leggja slíkt ofurkapp á að fá þetta fram? Það er einfaldlega vegna þess að þeir vita sem er að sala gosdrykkja mun aukast fyrir vikið. Er það ekki verðstýring á þeirri vöru? Þegar það síðan kemur í ljós að börn og unglingar eru sá hópur í þjóðfélaginu sem mest neytir þessarar vöru er þá ekki verið að verðstýra henni ofan í börn og unglinga? Við erum að gera það og Lýðheilsustöð varar okkur við því.

Ég tel breytingartillögu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vera hagstæða neytendum. Hv. þm. Ágúst Ólafur telur svo ekki vera. Spurningin er: Á hvaða forsendum? Það er hagstætt neytendum að bjóða upp á heilnæma vöru og reyna að bægja óhollustunni frá sérstaklega börnum og unglingum. Út á það gengur tillaga okkar. Hún er í anda manneldisstefnu og samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar.