133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:17]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að afstaða mín í dag sé ekki ábyrgðarleysi. Ég tel það ábyrgðarleysi að verja kerfi sem er gengið sér til húðar, kerfi sem heldur háu verði á hollum vörum. Ég held að hver einasti hagfræðingur geti staðfest það að þessi staðkvæmdaráhrif eru svo sannarlega til staðar. Þetta er ekki hugarburður minn eða einhverra örfárra. Ítrekað hefur verið bent á það, og m.a. í skýrslu hagstofustjóra, að þessi staðkvæmdaráhrif og þetta háa verð á hinum óhollu vörum og öðrum vörum sem búa við hátt verð eins og landbúnaðarvörur haldi uppi háu verði á öðrum vöruflokkum.

Ég ætla ekki að hætta mér í umræðuna um landbúnaðarkerfið en við höfum, eins og hv. þingmaður veit auðvitað, opinbera verðlagningu á mjólk. Þá mætti spyrja á móti: Vill hv. þingmaður frekari opinbera verðlagningu á öðrum vörum, að opinberar nefndir ákveði einfaldlega hvað hlutirnir kosti? Við erum flest komin frá þeirri hugmyndafræði sem var kannski (Forseti hringir.) ríkjandi á árum áður.