133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[18:25]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Umræðan sem hér á sér stað er svolítið merkileg og skrýtin. Við erum í raun að fjalla um frumvarp sem í eru fólgnar ákveðnar tæknilegar breytingar. Svo hefur komið fram breytingartillaga við það frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem er í raun nýtt frumvarp, og öll umræðan snýst um þá breytingu og fer jafnvel dálítið út um víðan völl því að menn eru eiginlega að ræða framhald af umræðunni sem var í desember þegar við samþykktum þá gífurlegu skattalækkun sem við munum upplifa eftir tvo daga.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði að ríkisstjórnin hefði komið með þetta á síðustu metrunum. Það er rétt. Þetta tekur gildi rétt fyrir kosningar en eitthvað af hinum gífurlegu skattalækkunum núverandi ríkisstjórnar hlaut að koma rétt fyrir kosningar vegna þess að við höfum lækkað skatta allt kjörtímabilið. Ég lofaði að geta þess hvaða skatta við hefðum lækkað og ég ætla að reyna að gera það, frú forseti, eftir minni.

Við höfum afnumið eignarskatta, sem lengi vel var mikið baráttumál félags aldraðra, svokallaða ekknaskatta. Þeir hittu sérstaklega aldraðar ekkjur fyrir sem þurftu að fara að borga eignarskatt, sem oft var mjög þungbært fyrir fólk með lágan lífeyri. Þetta var mikið baráttumál aldraðra sem nú er komið í höfn með því að eignarskatturinn er aflagður, elsti skattur á Íslandi, svokölluð tíund forðum. Svo höfum við lækkað tekjuskatta mörgum sinnum, lækkað tekjuskatta þrisvar sinnum, um 1% í hvert skipti þannig að samanlögð lækkun er 3%. Síðan erum við búin að hækka aukalega persónuafsláttinn 1. janúar þannig að meðaljóninn, sem er með eitthvað um 350 þús. kr. á mánuði, hefur núna með 3.500 kr. meira í vasanum en í desember og hann er með 3.000 kr. meira í vasanum til viðbótar vegna hækkunar á persónuafslætti. Samanlagt 6.500, bara frá því í desember. Hjón eru þá samanlagt með 13.000 kr. meira til ráðstöfunar. Þetta bætist við þá lækkun sem hefur orðið áður sem var 1% tvisvar sinnum, þ.e. fyrir 350 þús. kr. er þetta 7.000 kr. þannig að samanlagt er hver einstaklingur með meðaltekjur núna að borga 13.500 kr. minna í skatta heldur en hann hefði gert ef skattkerfið hefði verið óbreytt frá því að kjörtímabilið hófst. Fyrir hjón eru það 27 þús. kr. á mánuði til ráðstöfunar vegna breytinga á tekjuskattinum.

Við höfum lækkað skatta á hagnað fyrirtækja trekk í trekk. Það merkilega er að þegar skattarnir hafa verið lækkaðir, fyrst úr 45%, síðan niður í 32%, síðan 30%, síðan 28% og loks 18%, að tekjur ríkissjóðs af sköttunum, frú forseti, hafa stöðugt hækkað. Þá kemur upp þessi skrýtna spurning: Þegar tekjur ríkissjóðs hækka, þ.e. fyrirtækin í landinu borga meiri skatta með stórlækkaðri prósentu, hvort er það skattahækkun eða skattalækkun?

Það er ekki spurning ef við lítum á krónutöluna að skattarnir hafa verið að hækka en ef við lítum á prósentuna, þá eru 18% greinilega minna en 30%, þannig hef ég alla vega litið á og þá er það skattalækkun. Hið sama á við um einstaklinga líka. Vegna þess að hvað launin hafa hækkað mikið borga einstaklingarnir hærri skatt þrátt fyrir að prósenturnar hafi verið lækkaðar. Svo geta menn rifist um það endalaust hvort það er skattahækkun. (Gripið fram í: … persónuafslátt …) Ég gleymdi honum ekki, ég gat um hann áðan, hann lækkaði um 3 þús. kr. líka sem er ekki annað en gleðilegt.

Síðan höfum við lækkað og einfaldað erfðafjárskattinn, sem líka var illa séður af Félagi eldri borgara. Menn sáu að ef þeir ætluðu að láta gamlan vin erfa eign eftir sig þá þurfti hann að borga upp undir 45% í erfðafjárskatt. Þetta hefur verið einfaldað mjög mikið og nú erum við sennilega með einhvern lægsta erfðafjárskatt í heimi, 5% af þeirri eign sem er umfram milljón, fyrsta milljónin er erfðaskattsfrjáls. Kerfið er svo einfalt, frú forseti. Ég get lýst því hér og nú en áður var það svo flókið að það þurfti sérfræðinga til að útskýra það.

Þetta eru þær helstu lækkanirnar á þessu kjörtímabili en áður höfum við lækkað alls konar skatta eins og fjármagnstekjuskattinn, með einföldun og samræmingu á honum o.s.frv. Við erum búin að taka fullt af skrefum í þessu og lækkun á matarskatti er bara síðasta skrefið af fjöldamörgum og afskaplega ánægjulegt.

Menn hafa verið að rífast um hvað vöruverð muni lækka mikið. Þá kemur að því að við erum með frjálsa álagningu og frjálst vöruverð, frjálsan markað. Þá vaknar spurningin: Hversu sterk er samkeppnin á markaðnum? Mun skattalækkunin ná til neytenda eða munu verslunin og þjónustan taka eitthvað af henni? Þá kemur að hlut neytenda, að vera vel á verði á fimmtudagsmorgun þegar þetta tekur gildi. Panti maður pitsu sem kostaði 2.000 kr. áður þá ætti hún að lækka um 280 kr., um 14%. Hún á að kosta nærri 300 kr. minna, þ.e. 1.700 kr. eftir þessa breytingu nema einhver hirði skattalækkunina.

Ef menn fara út að borða og borða fyrir tíu þús. kr. á veitingastað, þá tek ég ekki vínið með því að það náðist ekki að samræma virðisaukaskattinn af því, þá ætti maturinn að lækka um 14% líka, þ.e. um 1.400 kr. og munar um minna. Í stað þess að borga 10 þús. kr. borga menn 8.600. Þetta þarf neytandinn að vita og vera vel á varðbergi og sjá til að þetta gangi eftir eins og á mörgum öðrum sviðum.

Síðan koma til lækkanir á vörugjöldum sem bætast við eftir því sem birgðir verslana minnka eða breytast því að vörugjöld eru lögð á við innflutning og koma ekki fram fyrr en birgðirnar hafa klárast. Sú skattalækkun gæti tekið einn eða tvo mánuði.

Svo var gert samkomulag við mjólkurstöðvar, að þær hækkuðu ekki verð. Það kemur hvergi fram en þegar menn hækka ekki verð í 7% verðbólgu í heilt ár þá er það lækkun. Svo á að lækka tolla og auka tollkvóta. Sá þáttur er kannski óljósastur af þessu öllu, hvernig hann kemur til með að virka.

Hér hefur komið fram í umræðunni að lágtekjufólk hagnist mest á lækkuðu matarverði. Þessu trúði ég einu sinni líka sjálfur, að lágtekjufólk þyrfti að borða eins og aðrir og það notaði stærri hluta af tekjum sínum til að kaupa mat. En nýleg könnun Háskólans á Bifröst sýnir að þessu er ekki þannig varið. Hátekjumenn eyða hlutfallslega meira af tekjum sínum í mat, það er svo merkilegt. Þá rifjaðist það allt í einu upp fyrir mér að þegar maður var blankur, á námsárunum, hvar sparaði maður fyrst og fremst? Auðvitað í mat. Maður keypti ekki nautafilet eða eitthvað svoleiðis. Maður sparaði í mat. Þessi mýta eða trú, að lágtekjufólk eyði hlutfallslega stærri hluta af launum sínum í mat, er kannski bara röng, enda sýnir könnunin frá Háskólanum á Bifröst að svo gæti verið.

Hér hefur mikið verið rætt um neyslustýringu. Ég er náttúrlega á móti henni vegna þess að ég ber það mikla virðingu fyrir fullorðnu fólki að ég vil láta það ráða því hvað það kaupir og hvað það kaupir ekki. Það er talað um bréf frá Lýðheilsustöð, það var ágætt. Stofnunin getur komið með góð ráð en það er engin skylda að fylgja þeim. Hún hefur nefnilega ekki löggjafarvald. Við höfum löggjafarvaldið og við getum ákveðið að reyna ekki að stýra fullorðnu fólki eða börnum fullorðins fólks. Það sem unglingar og börn drekka af gosi hafa þau fengið pening fyrir hjá foreldrunum. Það er væntanlega með vilja foreldranna. Þeir hafa jú vald yfir þeim og geta stýrt neyslunni. Það er merkilegt að þrátt fyrir þessa óskaplegu skattlagningu á gosi er neyslan óheyrilega mikil þannig að kenningin virðist bara alls ekki virka.

Ég bendi svo á eina drykkjarvöru sem er öndvegisgóð, a.m.k. hér í Reykjavík, sem er kranavatnið. Það kostar ekki neitt og er enginn skattur á því. (Gripið fram í: Annað segir Gunnar Birgisson.) Það kostar ekki neitt á hvern lítra. Það kostar ákveðið stofngjald en neyslan er ekki greidd. Samkvæmt kenningunni ættu unglingarnir að drekka blávatn alla daga því að það er ekki skattað en því miður gera þeir það ekki. Ég ætla bara að skora á unglinga að drekka dálítið meira blávatn í staðinn fyrir allt gosið. Menn skyldu ímynda sér hvernig væri ef tannlæknir tæki sig til og mundi sverfa glerunginn af tönnunum á þeim. Það yrði sko aldeilis sárt en það er einmitt það sem gosið gerir, samkvæmt upplýsingum frá Lýðheilsustöð. Hún má gjarnan og á að upplýsa unglingana um að þeir eyði glerungnum af tönnum sínum með gegndarlausri gosdrykkju. Það er miklu virkara en að hækka eða lækka verðið eitthvað pínulítið. Ef Lýðheilsustöð ætti að vera samkvæm sjálfri sér ætti hún að fara líka að leggja til skatta á fitu, þar á meðal á lambakjöt sem hefur töluvert mikið af hertri fitu, en menn hafa ekki beint talað um það.

Þetta vildi ég sagt hafa um þetta frumvarp. Ég er á móti þessari breytingartillögu frá Vinstri grænum af því að í henni felst forsjárhyggja. Það er í sjálfu sér alveg í samræmi við heimsmynd þeirra og hugsun að hafa vit fyrir öllu fólki en það er ekki í samræmi við mína heimsmynd og mína hugsun.