133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Flutningur og dreifing á raforku er nú verðlögð óháð því til hvers hún er notuð og gjaldskrá á að vera sem næst raunkostnaði við þessa liði. Þetta hefur haft í för með sér nokkrar breytingar á raforkutöxtum, reyndar bæði til hækkunar og lækkunar. Þegar þessar breytingar áttu sér stað fóru ýmis raforkufyrirtæki sér hægt í hækkanir á gjaldskrám sínum og því var raforkuverð á árinu 2003 lægra en eðlilegt gat talist. Fyrirtækin hafa að undanförnu verið að laga taxta sína að aðstæðum en þetta hefur orðið til þess að raforkuverð hefur hækkað nokkuð.

Skoðun sem farið hefur fram á þróun raforkugjalda hefur ekki leitt í ljós neina eina einhlíta skýringu á hækkunum í kjölfar setningar nýrra raforkulaga í mars 2003. Kerfisbreytingin sem slík hefur ekki myndað nýjan kostnað og því er ekki um kerfislægan vanda að ræða eða atvikstengdar hækkanir. Fremur virðist sem um sé að ræða leiðréttingu á því hvernig kostnaði er dreift á notendur. Þannig hafa raforkugjöld til stórs hluta notenda á dreifiveitusvæði Rariks lækkað eða staðið í stað þótt raforkugjöld til ákveðinna tiltekinna fámennari hópa hafi hækkað.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik hafa 75% viðskiptavina fengið lækkun á sama tíma og 25% þeirra hafa fengið hækkun. Þannig hefur raforkuverð til um 19 þúsund viðskiptavina staðið í stað eða lækkað um allt að 15% milli áranna 2004 og 2006 samkvæmt þeim upplýsingum en raforkuverð til rúmlega 7 þúsund viðskiptavina hefur hækkað um allt að 15%.

Ríkisstjórnin hefur komið til móts við hækkanir á raforkugjöldum með ýmsu móti. Þannig má nefna að fjárframlög til niðurgreiðslna voru hækkuð árið 2005 og á síðasta ári fóru rúmar 970 millj. kr. í niðurgreiðslur vegna rafhitunar íbúðarhúsnæðis. Þessu til viðbótar mun lækkun virðisaukaskatts úr 14% í 7% nú um mánaðamót lækka húshitunarkostnað einstaklinga en orka til húshitunar fellur þar undir.

Einnig hefur verið hugað að orkusparnaðaraðgerðum og sett af stað nokkur verkefni á sviði orkuhagkvæmni að frumkvæði Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis. Þá var árið 2005 stofnað svonefnt orkusetur hjá Orkustofnun sem hefur það markmið að auka orkuhagkvæmni og nýtingu annarra orkugjafa þar sem það reynist hagkvæmt og að dreifa upplýsingum um þau mál.

Á undanförnum árum hefur verulegum fjármunum verið varið til jarðhitaleitar og stofnstyrkja til hitaveitna til að fjölga þeim sem eiga kost á hitaveitu í stað rafhitunar. Þá hafa tilraunir með jarðvarmadælur gefið góða raun. Álitamál er hversu langt á að ganga í að greiða niður húshitunarkostnað þeirra sem nota óeðlilega mikla orku til húshitunar og hvort ekki sé eðlilegt að halda í hvata til orkusparnaðar. Í því sambandi hljóta aðrar aðgerðir, svo sem lagfæringar á húsnæði sem leiða til orkusparnaðar, að teljast vænlegri til árangurs ef til lengri tíma er litið.

Þá er rétt að benda á að lögum samkvæmt eru niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar bundnar við íbúðarhúsnæði. Auknar fjárveitingar til niðurgreiðslna hafa ekki og munu því ekki nýtast þeim sem nýta rafmagnið fyrir atvinnustarfsemi og orðið hafa fyrir hækkunum á raforkugjöldum í tengslum við rekstur. Í þessum tilvikum verður að taka tillit til ríkisstyrkja og samkeppnisreglna.

Það hefur áður komið fram í þessum sal að ég hef ákveðið að skipa starfshóp til að fara yfir og meta árangur af aðgerðum stjórnvalda til að lækka kostnað við húshitun íbúðarhúsnæðis. Starfshópnum er ætlað að fara sérstaklega yfir framkvæmd er lýtur að niðurgreiðslu rafmagns og olíu til húshitunar, greiðslustyrkja til stofnunar nýrra hitaveitna og átaks til jarðhitaleitar. Væntanlega mun skýrsla lögð fram um þetta verkefni á hausti komanda.