133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

bótaskyldir atvinnusjúkdómar.

611. mál
[14:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé algjörlega ljóst að þeir sem skoða atriði sem snúa að atvinnusjúkdómum sjá að lagaramminn er þess eðlis að það þarf að endurskoða hann. Það er spurning hvort sérstakan kafla um atvinnusjúkdóma þurfi í löggjöfina en núna er það fellt í slysatryggingakaflann. Ég vil ítreka að ég tel að endurskoða þurfi lögin, ákvæði laganna um almannatryggingar, um bætur vegna atvinnusjúkdóma, og samhliða þeirri endurskoðun sé skilgreint hvaða sjúkdómar teljast atvinnusjúkdómar. Vinnueftirlitið er að skoða hvort ástæða sé til að koma upp íslenskri skrá yfir atvinnusjúkdóma. Ég tel að slíkt ætti að gera í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins, sem auðvitað tengjast þessu máli mjög mikið, og að samhliða yrðu ákvæði almannatryggingalaga vegna atvinnusjúkdóma endurskoðuð.

Ég vil líka koma því á framfæri, virðulegur forseti, að almannatryggingalöggjöfin er í sífelldri endurskoðun. Það hafa verið gerðar á henni breytingar í gegnum árin, þær eru stundum gerðar oft á ári þannig að sú löggjöf er í sífelldri endurskoðun.