133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

Marco Polo áætlun Evrópusambandsins.

608. mál
[14:37]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð annað en að Marco Polo áætlunin sé alveg kjörin við íslenskar aðstæður og ég hef ákveðnar efasemdir um að rétt sé að hún snúist aðeins um flutninga milli landa í Evrópu. Ég bið hæstv. ráðherra að skoða það því að ég veit til þess að strandsiglingar t.d. í Noregi eru styrktar af Marco Polo áætluninni.

Mig langar til að vekja athygli á því sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir sagði áðan, að við gætum nýtt þetta til þess að styrkja við tækniþróun eins og þá sem Marorka, íslenskt frumkvöðlafyrirtæki, hefur verið með, sem er sparnaðartæki fyrir siglingar. Það hefur vakið heimsathygli má segja því að þjóðir, bæði Kanadamenn og fleiri þjóðir hafa tekið upp þennan tæknibúnað sem er mikill sparnaðarbúnaður sem Marorka hefur útfært. (Forseti hringir.) Sömuleiðis er það búnaður sem dregur verulega úr mengun.