133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Krónur og aurar skipta að sjálfsögðu máli í öllum rekstri, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni. Fjárvana heilbrigðisþjónusta er í vandræðum. Þess vegna spyrja menn um fjárframlög, menn spyrja hvað líði áformum um að stækka heilsugæsluna á Reyðarfirði, það vissu allir þegar ráðist var í þá byggingu að hún var of lítil, hvenær á að fara í uppbyggingu hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum og verður tryggt nægilegt fjármagn til hjúkrunardeildar og öldrunarþjónustu í Neskaupstað?

Menn spyrja um þetta, menn sætta sig ekki við það eitt að haldið sé í horfinu, menn spyrja um uppbyggingu og framtíðarstefnu. Það var e.t.v. mikilvægasta spurningin sem fram kom í máli hv. málshefjanda, Þuríðar Backman, hún spurði um þróun heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi, hvað menn sæju fyrir sér í þeim efnum, og hæstv. ráðherra sagði að byggt yrði á sama grunni og til þessa.

Staðreyndin er sú að þegar þessi mál eru skoðuð kemur í ljós að þróun heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi hefur einkennst af eins konar bráðaviðbrögðum við óeðlilegu ástandi. Þessi stofnun, Heilbrigðisstofnun Austurlands, hefur aldrei fengið að þróast eins og sjálfstæð eining í uppbyggingu eftir að stóriðjan fór á fullt um 2002–2003. Það má segja að það sé ósanngjarnt að spyrja fráfarandi ríkisstjórn um framtíðarþróun. Framsóknarflokkurinn er á leiðinni út, (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn er á leiðinni út, en þessi umræða er til marks um þann ásetning (Forseti hringir.) stjórnarandstöðunnar að (Forseti hringir.) hefja uppbyggingarstarf heilsugæslunnar (Forseti hringir.) og heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi.