133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að búið er að laga mjög fjárhagsstöðuna hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og það er m.a. út af reiknilíkaninu sem við erum að keyra núna á heilbrigðisstofnanir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að draga það fram að reiknilíkanið tekur tillit til mjög sérstakra aðstæðna. Það tekur tillit til þess hve byggðin er dreifð, hvort þar séu margar heilsugæslustöðvar, hvernig þjónusta sé á sjúkrastofnunum, frístundabyggð o.s.frv. Reiknilíkanið er alveg stórkostlegt tæki að mínu mati og það hefur m.a. valdið því að verið er að setja inn viðbótarfjármagn á Heilbrigðisstofnun Austurlands. Við erum að setja núna inn 273 millj. til viðbótar, þ.e. bæði í fjáraukalögum og í grunninn líka, í fjárlagagrunninn. Ég tel því að menn geti verið ánægðir með það að þingið hefur tekið mark á reiknilíkaninu og bætt verulega þarna inn fjármunum.

Þjónustan á Austurlandi er mjög góð að mínu mati. Hún er reyndar mjög góð á Íslandi yfirleitt. Við erum að taka tillit til séraðstæðna sem þar ríkja m.a. með því að efla þjónustu. Ég tel að þessi mál séu í góðum farvegi.

Varðandi nýju deildina sem verið er að opna á Neskaupstað þá verður hún innréttuð og það er allt í farvegi. Það er þess vegna rangt sem kom fram hjá einum þingmanni áðan, hv. þm. Kristjáni Möller, að þar væri allt í voða. Það er alger þvæla.

Mér finnst mjög merkilegt að hlusta á þingmenn lýsa vanda vegna aukins álags út af virkjanaframkvæmdum. Ég tel að þessar framkvæmdir hafi skapað stórkostleg tækifæri fyrir Austfirðinga. Þarna hefur orðið efling í atvinnu, ný störf hafa komið til og allur grunnur er miklu sterkari á þessu landsvæði. Mér fannst líka mjög merkilegt að hlusta á nýjan frambjóðanda í kjördæminu, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, lýsa þessu hér eins og að allt væri á hverfanda hveli í byggðamálum. (Forseti hringir.) Ég held að staðan sé bara að verða mjög góð á Austurlandi að þessu leyti fyrir verk þessarar ríkisstjórnar.