133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:05]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málsvörn hæstv. ráðherra Jóns Sigurðssonar er sú að fyrst að með ólögmætum hætti hafi verið staðið að því hér á landi að styðja innrásina í Írak verði þess ekki á sama hátt krafist að við getum með lögmætum hætti dregið þann stuðning til baka. Ég hélt að menn væru búnir að sjá villu síns vegar í því máli. Að sjálfsögðu er það skýr og lögbundin yfirlýsing ef hún kemur frá Alþingi Íslendinga.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan: Verkefnið núna er að koma í veg fyrir árás á Íran, held ég að hann hafi orðað það, eða stríð við Íran, ófrið við Íran. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Verkefni hverra er það og hvernig nálgast ríkisstjórn Íslands það verkefni að koma í veg fyrir að líka verði stríð við Írani?