133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur vakið athygli mína í dag að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fengið pláss fyrir sína menn á ræðulistanum. Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki sóst eftir því að fá pláss á ræðulistanum, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið vita af því að svo mikið sé um að vera í flokknum að hann geti ekki tekið þátt í umræðum. Ef svo væri hefði verið ástæða til að reyna að finna umræðunni annan tíma svo að sjálfstæðismenn gætu tekið þátt í henni.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvernig stendur á því að hér vantar Sjálfstæðisflokkinn til þess að ræða málin?

(Forseti (SAÞ): Á dagskránni er mál sem var ljóst í morgun að væri á dagskrá. Í þinginu er málfrelsi þannig að hver þingmaður sem hefur hug á því getur tekið þátt í umræðum.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Það liggur þá fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki óskað eftir því að umræðan færi fram á öðrum tíma. Það er þá niðurstaðan að Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur hefur ekki áhuga á að ræða þau mál sem rædd hafa verið hér. Af því er mikill skaði vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á þeirri vegferð sem verið er að ræða.