133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[18:03]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega makalaus kattarþvottur sem hv. þingmaður beitir hér og útúrsnúningar. Það liggur auðvitað fyrir að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var fast að fjórum árum í Framsóknarflokknum eftir að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson tóku þessa ákvörðun tveir sem forustumenn ríkisstjórnarinnar. Hann gagnrýndi hana kannski eftir á (Gripið fram í: Þið refsið honum.) eins og margir hafa gert.

Það er auðvitað ljóst sem hér hefur komið fram að þessi ákvörðun, sem tekin var á röngum forsendum eins og Halldór Ásgrímsson hefur viðurkennt og Jón Sigurðsson er að tala um, hefur reynt á stjórnmálamenn víða um heim. Ég hygg t.d. að danski forsætisráðherrann hafi farið best út úr sinni ákvörðun vegna þess að allar ákvarðanir sem hann tók í þessu máli tók hann í gegnum minnihlutastjórn og varð að fara með allar ákvarðanir sínar í gegnum danska þingið.

Ég ætla ekkert að deila um þetta við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson en ég gat samt ekki annað en vakið athygli á því að hann var fast að fjórum árum í Framsóknarflokknum eftir að ákvörðun var tekin eins og ég hef hér lýst. Hann var auðvitað góður gagnrýnandi en hann gekk til kosningabaráttunnar glaður og reifur eftir að þessi ákvörðun hafði verið tekin og var okkur trúr.

Hann var ekki settur af sem þingflokksformaður í Framsóknarflokknum. Hann veit að hann lenti í átökum innan Framsóknarflokksins, bæði þar og í Byggðastofnun, og þannig er að menn skipta oft um þingflokksformenn. Ég man ekki hvort hv. þingmaður var felldur eða hvernig það var en hins vegar var hann ekki kjörinn og það kom þessu máli ekkert við, ef minni mitt svíkur mig ekki. (Gripið fram í: Jú, jú, jú.)