133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[18:05]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn bregst hæstv. landbúnaðarráðherra okkur í þingsalnum með að útskýra fyrir okkur hvaða forsendur það voru sem voru rangar og ákvörðunin var reist á. Hann er búinn að vera á flótta í þessu máli frá upphafi þessarar umræðu. Byrjaði að halda því fram að Bandaríkjamenn hefðu sett okkur á listann að okkur forspurðum. Það er ekki rétt. Það hefur komið fram af hálfu beggja formanna stjórnarflokkanna á þeim tíma að þetta var meðvituð ákvörðun, pólitísk ákvörðun og beinn stuðningur við innrásina í Írak. Beinn pólitískur stuðningur beggja stjórnarflokkanna sem þeir tóku og létu síðan aðra í flokkunum vita eftir á. Það var þetta sem gerðist.

Hæstv. landbúnaðarráðherra verður að axla ábyrgð á þessu máli sem pólitískur forustumaður. Það gerir hann ekki með því að segja að það sem var rangt í málinu séu forsendur, eitthvað sem hann réði ekki við. Hann verður að viðurkenna að hann og forustan tóku ranga ákvörðun. Þeir höfðu allar forsendur til að taka rétta ákvörðun en þeir tóku ranga ákvörðun (Gripið fram í.) vegna þess að þeir töldu það af einhverjum ástæðum þjóna hagsmunum sínum betur. Það er út af fyrir sig hlutur sem menn verða að skýra. Það kann að vera að það tengist t.d. áframhaldandi veru bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Það kom nefnilega í ljós fáum dögum eftir síðustu alþingiskosningar, og þar sagði nú ekki minni maður frá en hæstv. forsætisráðherra á þeim tíma, Davíð Oddsson, að þeir hefðu orðið sammála um það, foringjarnir, að þegja yfir þeim áformum Bandaríkjamanna að kalla herliðið heim vegna þess að þeir vildu ekki láta þjóðina vita af því fyrir kosningar.

Hvers konar stjórnarhættir eru þetta, virðulegi forseti, þegar æðstu menn stjórnarflokkanna taka sér það fyrir hendur að skammta upplýsingar til þjóðarinnar um mikilvæg mál? (Gripið fram í: Ekki skamma mig fyrir það mál.)