133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:51]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er hv. þm. Ögmundur Jónasson bara pikkfastur í umræðunni um Írak af því að hún var hér fyrr í dag. (Gripið fram í.) Við erum núna að ræða um SOFA-samninginn og Samstarf í þágu friðar. (ÖS: … sófakommana.) Það er sá samningur sem við erum að ræða hér, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hv. þingmaður ætti að taka þátt í umræðunum fyrst hann hefur gamansemi í frammi. (Gripið fram í.)

Þetta frumvarp snýst ekki um Írak. Ég er ekki hér með yfirlit yfir það í hvað fjármunir friðargæslunnar okkar fara sundurliðað, hvorki í Írak né annars staðar. Ég er bara ekki með það hér enda átti ég ekki von á því að vera krafin svara um það. En ég á von á því að hv. þingmenn í utanríkismálanefnd geti fengið þær tölur sundurliðaðar, þeir geta líka flutt fyrirspurn í þinginu um málið eða leitað sér upplýsinga í utanríkisráðuneytinu. Það er örugglega ekkert mál að fá þær upplýsingar en ég ítreka að ég tel að okkar friðargæsla sé að sinna jákvæðu og uppbyggjandi starfi þar sem friðargæsluliðarnir eru að störfum á hverjum stað. Ég heyri reyndar að hv. þm. Ögmundur Jónasson taldi að svo væri líka, þetta væri fólk sem sinnti hlutverki sínu af alúð, og ég tel að svo sé. En frumvarpið sem við erum að ræða er um að tryggja réttarstöðu bandalagsþjóða okkar þegar þær koma hingað til Íslands í boði okkar ef við bjóðum þeim hingað og tryggja réttarstöðu íslensku friðargæsluliðanna á erlendum vettvangi og það tel ég vera sjálfsagt mál.