133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:15]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kalla þá eftir því að hv. þingmaður lýsi því hvaða vald Alþingi hafi til að breyta slíku eftir á. Ég geri ráð fyrir að sá samningur sem við erum að fjalla um sé skuldbindandi fyrir ríkissjóð til þessara sjö ára og bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef svo er ekki. En ef hann er ekki skuldbindandi til sjö ára þá veit ég svo sem ekki til hvers við ættum að fjalla um hann. Eftir röksemdafærslu hv. þingmanns þá væri þingmeirihluta á einu kjörtímabili heimilt að gera samninga um meiri hluta fjárútgjalda í öllum málaflokkum út yfir kjörtímabilið eftir að umboði hans er lokið, þ.e. taka allar ákvarðanir fyrir framtíðina, fyrir kjörtímabil sem sá meiri hluti er ekki kjörinn til að fara með stjórn landsins. Ég tel að jafnvel þótt það kynni ekki að stríða gegn fjárreiðulögum þá sé slíkt algerlega ótækt við stjórn á ríkisfjármálum og að menn í þessum málaflokki geri svo stóra og víðtæka samninga til svo langs tíma sé ekki boðlegt.