133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:43]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Út af ræðu hv. síðasta þingmanns:

Oft má af máli þekkja

manninn, hver helst hann er.

Sig mun fyrst sjálfan blekkja,

sá með lastmælgi fer.

Því miður hefur það gerst hér að stjórnarandstaðan, sem bauð Framsóknarflokknum sérstaklega í dans í síðustu viku, bregst ókvæða við af því að stjórnarflokkarnir hafa náð saman um þetta mikilvæga mál og leggja það nú hér fram. Þess vegna bið ég um ábyrgð stjórnarandstöðunnar í þessu máli, að þeir tali um það málefnalega. Ríkisstjórnarflokkarnir eru vissulega að bjóða stjórnarandstöðunni upp í fallegan tangó í þessu máli þar sem við getum lokið því og náð fram vilja allra stjórnmálaflokka í þessu máli, að náttúruauðlindir Íslands verði hafnar upp með þeim hætti að þær verði eign allra Íslendinga og staðfest í stjórnarskrá.

Þess vegna bið ég menn hér að spara dylgjur og blekkingar, spara stóryrði, og ég undra mig á því að stjórnarandstaðan sem var tilbúin að taka þetta mál á dagskrá í síðustu viku skuli hafna því að ræða það málefnalega hér í dag en fara í dylgjur og stóryrði og vera tilbúin svo aftur á morgun. Ég segi fyrir mig að mér finnst að stjórnarflokkarnir eigi um leið og ró færist aftur á þetta mál að vera tilbúnir hvenær sem er að ræða það við stjórnarandstöðuna. Við viljum gera þetta af ábyrgð og festu og ég tel að við höfum náð hér saman um mikilvægt og gott mál sem allir eiga að standa saman að. Þess vegna er stjórnarandstöðunni boðið upp í þennan góða tangó og ég bið menn um að hafna því ekki fyrir fram, heldur stíga dansinn fast og þétt og klára þetta mál.