133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[10:59]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst mjög barnalegt af hálfu stjórnarandstöðunnar að ráðast á forseta með þessum hætti. Hér fór sannarlega fram umræða í upphafi þingfundar með eðlilegum hætti og það sem oft gerist í slíkri umræðu gerðist hér þegar málshefjandi, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hóf umræðuna. Hún talaði tvisvar, og sömuleiðis sá sem til andsvara var. Hæstv. forseti hefur lýst því hvernig hæstv. forsætisráðherra komst aftur inn í umræðuna og mér fannst það eðli málsins samkvæmt mjög eðlilegt. Ég vil hér segja við stjórnarandstöðuna: Aðalatriðið er auðvitað að stjórnarandstaðan lesi frumvarpið til stjórnskipunarlaga sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. (ÖS: Hvað með að Framsóknarflokkurinn …?) Og það á í rauninni, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að vera þitt verkefni í dag að lesa þetta frumvarp og tala ekki alltaf af ábyrgðarleysi eins og þú gerir hér og í fjölmiðlum. Talaðu ekki alltaf af ábyrgðarleysi. Það setur ljótan svip á þitt ágæta andlit.

Hæstv. forseti. Ég fullyrði að sú umræða sem hér fór fram var með mjög eðlilegum hætti. Mér sárnar að stjórnarandstaðan sem vill koma þessu máli áfram, lýsti því yfir í síðustu viku, skuli koma hér upp og vera með dylgjur og róg í okkar garð og fara að fjalla um málið málefnalega án þess að hafa lesið það. Þess vegna finnst mér ágætt að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er hér eins og vorboðinn, fer nú heim og les frumvarpið og við tökum það sem allra fyrst til efnislegrar umræðu. Ég trúi því að stjórnarandstaðan muni ganga til liðs við ríkisstjórnarflokkana (Gripið fram í.) um þetta mál (Forseti hringir.) og klára það þannig að ég vil segja hér að allar ásakanir í garð hæstv. forseta finnst mér barnalegar á þessum morgni og mjög óviðeigandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (SP): Forseti ætlaði einmitt að minnast á það að hv. þingmenn ræddu um fundarstjórn forseta en ekki efni máls og brýna enn fremur fyrir þeim að viðhafa ekki persónuleg ávörp til þingmanna úti í sal.)