133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:05]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú gott að heyra að þingmenn Samfylkingarinnar hafni algerlega þessari framtíðarsýn hugmyndafræðingsins sem hefur nú lagt mikið í púkkið hjá Samfylkingunni. Vil ég minna m.a. á fiskveiðistefnu Samfylkingarinnar sem virðist að einhverju leyti vera þjökuð af þessum hugmyndum sem fram hafa komið um að búa til einsleitt kvótakerfi fyrir mismunandi fiskimið.

Ég sætti mig ekki við það þegar verið er að ræða hér málefnalega um mál útlendinga að Hitler og Stalín sé blandað inn í þá umræðu. Ég skil bara ekkert hvað hv. þingmaður er að fara, frú forseti, og hvað það kemur málinu við. Við erum að ræða hugmyndir sem hafa komið fram af málsmetandi fólki eða frá fólki sem samfylkingarmenn segja að sé málsmetandi og tekið er mark á þar innan dyra, þ.e. hugmyndir um að flytja inn útlendinga í milljónatali.

Mér finnst þetta bara vera vitleysa. Ég vona að hv. þingmaður taki undir þá skoðun mína. Ég vona að hann komi hér upp í ræðu og fari í gegnum það hvort hann sé sammála þeirri framtíðarsýn eða ekki, ég náði þessu ekki alveg. Mér finnst það bara vera vitleysa þegar menn leggja svona í púkkið í umræðu um þennan alvarlega og mikilvæga málaflokk. Við erum að ræða um óheft innstreymi fólks og hvernig við eigum að fylgja því eftir að það séu tæki til þess að fólk sem komi inn á vinnumarkaðinn líði ekki fyrir félagsleg undirboð, að þá megi ekki taka hér inn í umræðuna þær hugmyndir sem hafa komið frá Samfylkingunni. Það er ekkert hægt að ræða það öðruvísi.

Þetta er því miður þannig. Er þetta afstaða hv. þm. Marðar Árnasonar? Tekur hann undir þessar hugmyndir eða hafnar hann þeim? Ég hafna svona vitleysishugmyndum.