133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

[16:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við fundarstjórn forseta í morgun varðandi umræður um störf þingsins þar sem forsetinn fór ekki eftir mælendaskrá heldur hleypti forsætisráðherra á mælendaskrána þó að hann væri ekki skráður þar og setti annan þingmann á undan mér þó svo sannarlega hafi sá þingmaður ekki beðið um orðið á undan mér.

Hæstv. forseti útskýrði mál sitt í morgun með þeim hætti, virðulegi forseti, að forseti gefi þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármál er tekið fyrir. Þó geti hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra sem á hlut að máli og framsögumann til þess að ræður með og á móti málefni skiptist á.

Einnig gat forseti þess að hv. formaður Samfylkingarinnar hefði óskað eftir að ræða málið aftur og einn þingmanna úr flokki hennar vék í staðinn af mælendaskrá. Að sjálfsögðu getur forseti gefið ráðherrum og einkum og sér í lagi hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að ræða hér málin. Þetta var efnislega það sem forseti sagði í morgun til útskýringar á ákvörðun sinni.

Ég vil vitna til fyrri ákvarðana og útskýringa forseta, sama forseta, af athugasemd um sama tilefni. 26. febrúar síðastliðinn segir forseti eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Forseti hefði haldið að hún þyrfti ekki að útskýra hvaða reglur giltu um umræðu um störf þingsins og að hv. þingmanni eins og öðrum hv. þingmönnum væri kunnugt um það. Það er auðvitað þannig að sérstök regla gildir um þennan þátt í þingsköpum og þingmenn eru einfaldlega teknir á mælendaskrá í þeirri röð sem þeir óska eftir að taka til máls. Forseti spyr ekki hv. þingmenn að því hvað þeir ætla að ræða um efnislega.“

Þetta var svar hæstv. forseta 26. febrúar, að röð gildi og ekkert annað. Þingmenn fá orðið samkvæmt þeirri röð sem þeir biðja um það.

12. febrúar, virðulegi forseti, er einnig að finna í þingtíðindum að athugasemd hafi verið gerð við fundarstjórn forseta af þessu sama tilefni. Þá sagði forseti líka, með leyfi forseta:

„Um þetta vill forseti segja að sú regla gildir í þessari umræðu að þingmenn eru teknir á mælendaskrá í þeirri röð sem þeir biðja um orðið.“

Ég vil því ítreka athugasemdir mínar, virðulegi forseti, og óska eftir því að forseti geri sér ekki mannamun á þingmönnum eftir því hvort þeir eru í Frjálslynda flokknum eða einhverjum öðrum flokki og eftir því hvort þeir eru ráðherrar eða ekki.