133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er óhjákvæmilegt að ræða fyrst lítillega aðstæður eða bakgrunn þessa máls, ekki síst vegna framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég verð að segja hvað varðar þann inngang að ræðu hans held ég að hann sé einhver sá vandræðalegasti sem seinni tíma þingsagan geymi, þegar hæstv. forsætisráðherra var að reyna að útskýra hvers vegna það væri réttlætanlegt og hvernig það hefði gerst að hæstv. ráðherra ásamt með formanni hins stjórnarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefði soðið saman þetta frumvarp og hent því hér inn í þingið eins á sig komnu og raun ber vitni.

Það var ágætt að fá þann inngang sem rakti það að þetta er einsdæmi í sögu lýðveldisins. Það er einsdæmi í sögu lýðveldisins að menn hyggist standa að stjórnarskrárbreytingum með þessum hætti, að formenn tveggja tiltekinna flokka taki sig saman og komi með svona snöggsoðið mál inn á þing á lokadögum og ætli því afgreiðslu. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við þær söguskýringar hæstv. forsætisráðherra, sem voru einnig mjög vandræðalegar, að þetta hafi verið framkallað af þeirri gjörð stjórnarandstöðunnar að bjóða ríkisstjórninni upp á samstarf um að koma sameignarákvæðum á auðlindum inn í stjórnarskrá. Hæstv. forsætisráðherra orðaði það þannig að það hefði keyrt um þverbak þegar stjórnarandstaðan hélt blaðamannafund og bauð ríkisstjórninni samstarf um þetta mál. (Forsrh.: Framsóknarflokknum.) Nei. (Forsrh.: Sagði ég.) Já, og það er rangt. Það verður að gera þær kröfur til hæstv. forsætisráðherra að hann fari rétt með skjalfesta hluti. Ég er hér með yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar í höndunum sem boðsend var til hæstvirtra ráðherra og kynnt fjölmiðlum þennan dag. Henni lýkur á orðunum, með leyfi forseta:

„Þingflokkar stjórnarandstöðunnar lýsa sig reiðubúna til samstarfs við ríkisstjórnina um framgang málsins á þeim grundvelli.“

Hvergi er Framsóknarflokkurinn þarna nefndur á nafn. (Forsrh.: Hverjum var boðið upp í dans?) Hin opinberlega yfirlýsing þarna er (Landbrh.: Hvað með dansinn?) sú …

Virðulegi forseti. Nú hef ég tæpar 20 mínútur til ráðstöfunar og ég legg til að hæstv. ráðherrar hemji sig og hlusti á það sem ég hef hér að segja, komi svo í andsvör við mig og taki aftur til máls eftir þörfum. Þetta er greinilega mjög viðkvæmt en ég held að það væri skilvirkari stjórn á vinnubrögðum (Gripið fram í.) hér í þinginu.

Það er ósköp einfaldlega þannig, frú forseti, að það er átakanlegt að heyra hæstv. forsætisráðherra lýðveldisins reyna að leita skjóls og afsaka vinnubrögð sín í þessu máli, sem eru forkastanleg, með því að stjórnarandstaðan hafi, að undangengnum yfirlýsingum forustumanna Framsóknarflokksins úr þessum ræðustóli og að loknu flokksþingi Framsóknarflokksins þar sem hótað var stjórnarslitum, lýst sig reiðubúna til að afgreiða þetta mál á þeim forsendum sem yfirlýsing okkar ber vitni um. Ábyrgðin hverfur þar með ekki af herðum forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, hvað það varðar að sjóða saman á 1–2 sólarhringum í hrossakaupum milli stjórnarflokkanna frumvarp til laga að breytingum á stjórnarskipunarlögum um mjög vandasamt og flókið mál og henda því inn í þingið án nokkurrar viðleitni til samstarfs við aðra aðila. Lykilorð í yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar eru tvö, samstarf og ríkisstjórnin. Við buðum ríkisstjórninni til samstarfs á þessum grunni, ríkisstjórninni, við buðum upp á samstarf. Það fylgdi með að við biðum í framhaldinu viðbragða frá ríkisstjórn. Þetta lá alveg skýrt fyrir.

Það er orðin meiri viðkvæmnin ef ríkisstjórnin hrekkur svona óskaplega við, hún hefur kannski verið orðin tæpari en maður átti von á.

Varðandi þetta þarf í rauninni ekki að hafa um það frekari orð. Ég verð þó að segja, virðulegi forseti, að ég er undrandi á því að hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem hefur opinberlega trekk í trekk, svo að ég fari ekki að vitna í viðræður okkar formanna stjórnmálaflokkanna á fimm manna fundum, lýst því að það væri auðvitað mjög erfitt að ætla að standa svo bratt að stjórnarskrárbreytingum eins og t.d. afgreiðsla á sameiginlegri niðurstöðu stjórnarskrárnefndar væri hér á nokkrum dögum fyrir þinglok. Er það ekki rétt eftir haft (Gripið fram í.) að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt það um niðurstöðu sem búið var að þaullesa og ræða og bræða saman og skoða með aðstoð sérfræðinga vikum saman? Hvað má þá segja um þetta?

Frú forseti. Ég hef aldrei séð aumari greinargerð fyrir stjórnarskipunarlagafrumvarpi nokkurn tímann. Hafa þó kannski einstöku þingmenn sem hafa flutt slíkt sem æfingu leyft sér að fara frekar einfaldlega yfir lögskýringarnar, en ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er hann stoltur af lögskýringunum sem hér er að finna í greinargerð með þessu frumvarpi, ef svo skyldi kalla? Hvar eru nú ábyrgu orðin og yfirlýsingarnar um að menn verði að vanda mjög til verka? Hvernig líður íhaldsmönnunum sem voru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunarnefnd, handhafar og málsvarar hinnar þjóðlegu íhaldssemi sem vildu geirnegla svoleiðis allar aðferðir við að breyta stjórnarskránni, þær þyrftu að vera svo vandaðar og það þyrftu að vera í þessu svo sterkar bremsur til að ekkert væri gert í fljótræði? (Gripið fram í: … formaðurinn …) Hvernig líður hv. þm. Birgi Ármannssyni með þessi vinnubrögð? Vill kannski hv. þingmaður aðeins koma hérna á eftir og útlista það fyrir okkur?

Staðreyndin er sú að efnisákvæði þessa frumvarps eru ákaflega mótsagnakennd. Það má þegar af þeirri einu ástæðu spyrja hvort málið sé tækt til afgreiðslu svona. Það er í raun og veru innbyggð mótsögn í þessa einu málsgrein sem þarna er á ferðinni. Hvort eru menn að gera, festa í sessi raunverulega þjóðareign, sameign, á náttúruauðlindunum eða vernda hin einstaklingsbundnu réttindi, bein og óbein? Hvort eru menn að gera? Eða halda menn að það sé hægt að gera hvort tveggja í sömu málsgreininni, svo að segja næstum í sömu setningunni? Að segja eitthvað í fyrri hluta setningar en draga svo aðeins til baka í seinni hlutanum, er það þannig lögfræði sem menn vilja ástunda? Er það þannig ákvæði sem menn vilja hafa í stjórnarskrá?

Ég verð líka að segja, frú forseti, að ég spyr mig: Er mönnum alvara? Er formönnum stjórnarflokkanna alvara í því að þetta sé afgreiðslutækt mál og það jafnvel á 2–3 sólarhringum? Ég hef engin áform heyrt um að breyta starfsáætlun Alþingis en menn tala hér eins og það eigi að ljúka þingi á fimmtudag eða föstudag. Er þetta í alvöru? Er hinn ábyrgi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, í alvöru að ætlast til þess að þetta verði afgreitt á þessum grunni?

Til að hafa það á hreinu, frú forseti, er Vinstri hreyfingin – grænt framboð að sjálfsögðu mjög áfram um það að sameignarákvæði á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar komi inn í stjórnarskrár. Keppikefli okkar hefur verið að slík ákvæði væru samtengd við umhverfisákvæði og þannig voru hlutirnir unnir í stjórnarskrárnefnd, að inn í stjórnarskrá kæmu samtengd auðlinda- og umhverfisákvæði. Það væri að mínu mati efnislega besta niðurstaðan og að því höfum við keppt.

Mér er málið kannski dálítið skylt vegna þess að ég hygg að ég sé, ásamt með tveimur þáverandi félögum í þingflokki, upphafsmaður að því að koma á dagskrá þingsins, í tengslum við fiskveiðistjórnarlögin, hugsuninni um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar. Þannig var að veturinn 1983–1984, þegar kvótalögin voru sett, flutti ég ásamt með hv. þingmönnum Geir Gunnarssyni og Hjörleifi Guttormssyni í fyrsta sinn hér á þingi breytingartillögu sem fól það í sér, með leyfi forseta, eins og segir á þskj. 242:

„1. málsgr. 2. gr. laganna orðist svo:

Fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar eru þjóðareign, sameign allra Íslendinga.“

Þetta var að vísu kolfellt og það liðu allmörg ár þangað til þetta kom inn í lög, líklega 1987, og var síðan styrkt í sessi með viðbótarsetningu sem var samin í ríkisstjórn sem ég var þátttakandi í, 1990, að úthlutun réttinda á þessum grunni myndaði ekki óafturkræft eða varanlegt forræði. Ég hef ekki breytt um skoðun í þeim efnum. Ég er jafnáfram um það nú og ég var fyrir rúmum 23 árum að það sé alveg tryggt að þjóðin eigi saman þessa auðlind og aðrar sem ekki eru þegar komnar í einstaklingsbundna einkaeigu.

Nú er það svo að tiltekin sameiginleg gæði í þessu landi eru sannarlega sameiginleg. Þess vegna er það að mínu mati furðulegur málflutningur að halda því fram að þjóðin geti ekki átt neitt saman og slíkt sé marklaust. Það er fjarstæðukennt og gengur gegn veruleikanum, gengur gegn alþjóðlegum rétti og gegn viðurkenndum hlutum í þeim efnum. Það er ekki bara þannig að þjóð geti átt hluti saman, mannkynið getur átt hluti saman og á þá saman. Það er viðurkennt.

Síðan er líka viðurkennt að sumir hlutir eiga sig sjálfir, þeir gera það í raun og veru. Margir telja kannski að það sé einmitt sú hugsun sem sé of mikið að láta undan í heiminum í dag. Hver á t.d. lífríkið? Geta menn slegið eign sinni á það? Á það sig ekki sjálft í raun og veru, lífið, aðrar tegundir? Getur maðurinn slegið einstaklingsbundinni eða einkabundinni eign sinni á aðrar lífverur? Er það í eðli sínu rökrétt? Það má efast um það.

En íslenska þjóðin telst samkvæmt lögum, og það er þó vel að í lögum er a.m.k. á þremur eða fjórum stöðum algerlega tekið skýrt fram að þjóðin eigi hluti saman, eða ríkið fyrir hönd hennar. Það eru fiskstofnar á Íslandsmiðum, sbr. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það eru auðlindir á og í hafsbotni á grundvelli laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Þar er að vísu þannig frá málinu gengið að íslenska ríkið er eigandinn fyrir hönd þjóðarinnar. Það er í þjóðlendulögunum þar sem sama skipan er valin. Og það má segja að á ýmsum fleiri sviðum liggi það nokkuð ljóst fyrir að ríkið eða þjóðin sameiginlega eigi hlutina. Það er. t.d. ekki um það deilt að loftið, útvarpsbylgjur og tíðnisvið er sameiginlegt. Það getur enginn slegið eign sinni á það.

Ég vil líka spyrja, frú forseti: Halda menn ekki að þjóðinni finnist að hún eigi Þingvelli saman? Ætli það ekki, þjóðarhelgidómur? (Gripið fram í: Það er bara í lögum.) Ég held að það sé bara í lögum. (Gripið fram í: Sameign.) Það er sameign. Hvaða raus er þetta um að þjóðin geti ekki átt hluti saman? Leggjum það til hliðar og glímum við efni málsins sjálfs sem er hvernig við göngum þá frá því í stjórnarskrá. Það er sannarlega ástæða til, en það má ekki vera neitt gerviákvæði, það má ekki vera neitt brelluákvæði, það má ekki vera þannig að það sé verr af stað farið en heima setið. Hver er að mínu mati megintilgangurinn, og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, með því að ná slíku ákvæði inn í stjórnarskrá? Jú, það kom að hluta til fram í máli forsætisráðherra þótt í framhjáhlaupi væri. Það er að koma alveg tryggum stjórnarskrár- og lagaskorðum við því að úthlutun og afnotaréttur gagnvart sameiginlegum auðlindum myndi ekki smátt og smátt eignarrétt og óafturkræft forræði. Það var að mínu mati mjög mikilvægt að ná því inn í lögin um stjórn fiskveiða 1990 vegna þess að þá var þegar byrjuð umræðan um það að árleg, sem þá var að vísu, úthlutun veiðiheimildanna mundi smátt og smátt mynda hefðarrétt. Það er að mínu mati stærsta gildið í þessum efnum, auk þess sem það er auðvitað bara lagalega og pólitískt rétt að ganga þannig frá málum.

Auðvitað er nauðsynlegt í þessu sambandi að menn ræði hlutina sem það sem þeir eru. Hvað er eignarréttur einstaklinga? Hann er ekki náttúrulögmál, ekki eitt af náttúrulögmálunum. Hann er sögulegt og pólitískt hugtak, fyrirbæri, menningarbundið fyrirbæri ef menn vilja kalla það svo, vegna þess að þegar mannkynssagan er skoðuð hafa verið á þessu ýmis form í gegnum tíðina og eru enn þann dag í dag, fornar menningarþjóðir margar gengu þannig frá hlutum að þar átti enginn neitt, það áttu allir allt saman. Frumbyggjum í Ástralíu mundi aldrei detta í hug að einstaklingur gæti slegið eign sinni á veiðilendur, þær eru sameiginleg eign, sameiginlegur tilverugrundvöllur samfélagsins. Við þurfum ekki alla leið til Eyjaálfu, förum yfir Grænlandssund þar sem Inúítar ganga þannig frá málum enn þann dag í dag að enginn getur átt land — af því að það er sameiginleg veiðilenda, sameiginlegt fyrir líf og tilveru viðkomandi þjóðar.

Í Alaska, í sjálfu guðs eigin landi kapítalismans — hvernig er gengið frá málum í Alaska? Þeir yrðu langleitir ef þeir fengju Sigurð Líndal í heimsókn, þar sem veiðirétturinn er almenningur. Ætli það ekki? Og hvað er miðjan í Mývatni? Hver á hana? Ja, hún á sig kannski sjálf. Hún er almenningur samkvæmt dómum. Ef einhver á hana er það þjóðin, annars á hún sig kannski sjálf og best að það sé þannig. Hvað er Svalbarði, hver á hann? Ekki Norðmenn, ég veit ekki til þess að ríkisstjórn ætli að skrifa upp á það, er það nokkuð? Er hún ekki að undirbúa málaferli til að einmitt afsanna það að Norðmenn eigi Svalbarða? Hver á Svalbarða? Enginn, hann er terra nullius, hann á sig þá sjálfur ef út í það er farið. Eða, sem líka er góð nálgun, mannkynið á hann saman. Það er ekkert því til fyrirstöðu, það verða engin rök sótt í það að þjóðin geti ekki átt svona eignir saman, og það á hún einmitt að gera. Þess vegna er það fullkomlega á sínum stað að glíma við það viðfangsefni að koma því með skilvirkum hætti inn í lög og stjórnarskrá. En að vinna svona að því, frú forseti, er auðvitað að byrja mjög á öfugum enda. Ég verð að segja alveg eins og er að mér eru það talsverð vonbrigði að hæstv. forsætisráðherra skuli skrifa upp á vinnubrögð af þessu tagi.

Það er út af fyrir sig hægt að reyna að skilja hvernig svona hlutir gerast ef menn eru í örvæntingu, örvæntingin elur oft af sér fáránlega hluti, þangað er oft að rekja rót margra hluta sem menn sjá eftir á að voru mistök og fljótræði hið mesta. En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.

Þetta mál þarf að skoðast mjög vel og það er engin afsökun þó að skammt lifi starfstíma Alþingis. Ef menn ætla sér þá í alvöru að afgreiða þetta mál taka menn sér í það þann tíma sem til þess þarf að gera það sómasamlega og það sé skýrt hvað menn eru að gera og að menn leiki sér ekki með hluti af þessu tagi. Það er mikið í húfi. Hvers konar upplit er á stjórnmálalífinu í landinu gagnvart þjóðinni ef allt sem á undan er gengið í formi átaka um þessi mál og í ljósi hins sögulega aðdraganda þess að stjórnarflokkarnir lömdu þetta inn í stjórnarsáttmála sinn til þess að reyna að kaupa sér einhvern frið gagnvart óánægjunni í landinu er þá boðlegt að gera það svona? Halda menn að menn bæti ráð sitt með því? Halda menn að frekar verði borin virðing fyrir þeim með þeim hætti? Það leyfi ég mér mjög að efast um. Ég held að þjóðin sjái algerlega í gegnum það. Ég held að stjórnarliðar gerðu rétt í að hugsa nú mjög sinn gang og velta því fyrir sér hvort þá væri ekki verr af stað farið en heima setið ef hin almenna niðurstaða af skoðun málsins verður sú að þetta sé sýndarmennska, að þetta sé í besta falli þá merkingarlaust og skaðlaust ákvæði, í versta falli heldur verra, séð frá sjónarhóli hugmyndanna um að reyna að sætta þjóðina eitthvað á hlutina með því að ganga frá því að auðlindir sjávarins séu sameign.

Bara til að koma því svo að í leiðinni, talandi um auðlindir sjávar vegna þess sem hér var rætt fyrr, að þegar það bar á góma á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar sögðum við að ef ekki næðist samstaða um víðtækari skilgreiningu mætti taka það til skoðunar að afgreiða eingöngu þann hlutann sem sneri að auðlindum sjávarins — ég held að ég hafi reyndar nefnt strax auðlindum sjávar og hafsbotns — sem áfanga á þeirri leið að koma inn í stjórnarskrá almennu ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum og mín afstaða er sú að þetta eigi að taka til allra náttúruauðlinda, landsréttinda og gæða sem ekki eru fyrir í sannanlegri einkaeign einhvers aðila.

Þau geta verið mjög margvísleg og þess vegna verður að vera hægt að útfæra það síðan nánar í lögum eins og alltaf hefur verið ætlunin, og allt frá því að auðlindanefnd setti sína hluti á blað árið 2000. Þá bíður auðvitað mikil og vönduð lagaskilgreining og lagavinna til að fylla upp í ákvæði sem eðli málsins samkvæmt geta tæpast orðið tæmandi. Auðvitað getum við reynt að telja upp auðlindir sjávar og hafsbotns, þjóðlendur, almenninga, Þingvelli eða hvað það nú væri sem við viljum hafa þarna undir. En það verður seint tæmandi, hygg ég. Það geta komið til sögunnar ný óefnisleg verðmæti sem við ákveðum að hafa sameign þjóðarinnar sem við endilega sjáum ekki fyrir okkur hver eru í dag.

Hér þarf að vanda til verka, frú forseti, en það er illa til þess stofnað hér í upphafi af hálfu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar.