133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst að allt önnur staða sé að skapast í þessari umræðu eftir að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur rétt fram sáttahönd sem mér finnst að hugsanlega sé hægt að taka í. Hæstv. ráðherra hefur lýst innihaldi frumvarps og margt sem hann hefur sagt er þess eðlis að við í Samfylkingunni gætum fallist á það, en ákvæðið þyrfti hins vegar að gæða betra innihaldi. Ég held að í nefnd væri hægt að fara langt með það að ná samkomulagi.

Ég get hins vegar ekki annað en rætt líka ummæli hæstv. forsætisráðherra frá því fyrr í dag þegar ég spurði hann hvernig á því stæði að um þingmannafrumvarp væri að ræða en ekki stjórnarfrumvarp. Ég rifjaði það upp að þegar forveri hans, hæstv. forsætisráðherra, lagði fram frumvarp í tíð ríkisstjórnar Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks síðla vors 1995, sem fól einmitt í sér sameign á auðlindum, var um ríkisstjórnarfrumvarp að ræða. Hugsanlega er munurinn á þessu frumvarpi og því frumvarpi sem þá var lagt fram sá að um frumvarp hæstv. forsætisráðherra ríkti full samstaða í ríkisstjórninni. Margt bendir hins vegar til þess að í núverandi ríkisstjórn ríki ekki full samstaða um þetta frumvarp. Það er óhjákvæmilegt annað en það verði hreinsað upp í þessari umræðu, herra forseti, hvort ástæðan fyrir því að tveir hæstv. ráðherrar leggja frumvarpið fram sem þingmannafrumvarp en það komi ekki fram sem ríkisstjórnarfrumvarp sé sú að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi ekki stutt frumvarpið.

Það kom fram í blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, nú á dögunum að þaggað hefði verið niður í hæstv. heilbrigðisráðherra og stuðningsmönnum hennar, hún hafði þó áður á flokksþingi Framsóknarflokksins hótað stjórnarslitum ef ekki yrði gengið að kröfum framsóknarmanna. Hún var beygð á bak aftur af hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formanni Framsóknarflokksins, og hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformanni flokksins, þannig að margt bendir til þess að um þetta ríki úlfúð og óeining innan ríkisstjórnarinnar. Það er þess vegna, herra forseti, ekki spurning um form eins og hæstv. forsætisráðherra kallar það í skætingstóni í dag (Gripið fram í.) heldur spurning um raunverulega undirstöðu ríkisstjórnarinnar. Eða, herra forseti, skyldi hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, telja að það sé einungis formsatriði hvort frumvarp sem tveir formenn stjórnarflokkanna leggja fram njóti stuðnings allra í ríkisstjórninni eða hvort það sé yfir höfuð þingmeirihluti fyrir ríkisstjórninni? Það getur vel verið að hæstv. forsætisráðherra kalli það formsatriði. Það er ekki formsatriði fyrir þá sem unna þingræði og það er ekki formsatriði fyrir þessa þjóð.

Það kom hins vegar alveg skýrt fram líka í máli hæstv. forsætisráðherra að eina ástæðan fyrir því að hann dróst á það að leggja frumvarpið fram var sú að hann taldi að stjórnarandstaðan hefði hugsanlega getað sett krók utan um hæla Framsóknarflokksins með því að bjóðast til samstarfs í málinu. Það var alveg skýrt hjá hæstv. forsætisráðherra.

Það er líka algerlega óhjákvæmilegt að rifja upp frammistöðu Sjálfstæðisflokksins í málinu. Þeir birtu þjóðinni yfirlýsingu um það, þegar ríkisstjórnin hóf göngu sína í upphafi kjörtímabils, að þeir mundu ásamt Framsóknarflokknum beita sér fyrir því að í stjórnarskrá yrði sett ákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum. Ég sat í stjórnarskrárnefnd hæstv. forsætisráðherra og veit hvað gerðist þar. Þar var það einn flokkur sem barðist gegn því að slíkt ákvæði yrði tekið upp í vinnu nefndarinnar og það var Sjálfstæðisflokkurinn. Enginn annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn setti beinlínis hnefann í borðið undir þeim skýringum að sjálfsögðu að um heildarendurskoðun væri að ræða. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem barðist gegn því áður en vinnan hófst að ákvæði af þessu tagi yrði tekið inn í vinnu nefndarinnar. Ég rifja það upp að stjórnarandstöðuna þurfti til til þess að lýsa því yfir, bréflega og í fjölmiðlum, að hún tæki ekki sæti í stjórnarskrárnefnd nema þetta mál og ýmis önnur yrðu undir. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem barðist þá gegn því en það má Framsóknarflokkurinn eiga, og sérstaklega hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður stjórnarskrárnefndar, að hann brást vel við. Það var forsenda þess að við tækjum þátt í starfinu að því yrði lýst yfir af hálfu formanns stjórnarskrárnefndar að ýmis önnur ákvæði en einungis þau sem lutu að I. og II. kafla stjórnarskárinnar yrðu undir og var þar sérstaklega getið um þjóðareign á náttúruauðlindum. Málið fór því í stjórnarskrárnefnd vegna atfylgis og hörku stjórnarandstöðunnar. Það er rétt að það komi fram. Það var bara Sjálfstæðisflokkurinn sem barðist gegn því.

Hins vegar eru greinilega skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins því að fyrr á árum, árið 2000 þegar auðlindanefndin svokallaða skilaði tillögu sinni, skrifuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins allir undir tiltekna tillögu að nýju stjórnarskrárákvæði þar sem inni voru ákvæði sem við hefðum viljað sjá í frumvarpinu í dag og hefðum þá glöð getað samþykkt það. Þetta skiptir máli vegna þess að afstaða Sjálfstæðisflokksins, sem þá var í auðlindanefndinni greinilega beygður til fylgis við þjóðareign af því tagi sem hefur innihald — hann hefur skroppið frá því, hann brá fæti fyrir það í stjórnarskrárnefnd og hann er núna að beita sér fyrir því að hér er lagt fram ákvæði sem því miður fullnægir ekki þeim kröfum sem verður að gera til hefðbundinna frumvarpa, hvað þá frumvarpa að breytingum á stjórnskipunarlögum, á stjórnarskránni sjálfri. Það er algerlega nauðsynlegt að þetta komi fram. Hitt er svo annað mál að mér finnst ekki að Framsóknarflokkurinn hafi starfað af fullum heilindum í þessu máli gagnvart samstarfsflokki sínum. Það vil ég að komi alveg skýrt fram.

Á sínum tíma var skipaður sérstakur undirhópur í stjórnarskrárnefnd sem átti m.a. að fjalla um auðlindamál. Sá undirhópur var undir forsæti hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Það er fróðlegt í áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar að lesa fundargerðir þess undirhóps og þá afurð sem frá honum kom. Þar er nákvæmlega frá því greint hvað var rætt í nefndinni, sagt frá því að það hafi verið sammæli allra, þar á meðal hv. þm. Bjarna Benediktssonar, að slíkt ákvæði yrði tekið upp í stjórnarskrána. Síðan er því lýst í fundargerðum hvernig þessari vinnu vindur fram og að lokum kom fram tillaga undirhóps sem var undir forustu Bjarna Benediktssonar og þar er bókstaflega talað byggt á öllum þeim rökum sem var að finna í auðlindanefndinni frá árinu 2000. Þar m.a. eru þessi þrjú atriði sem skipta öllu máli og hér hafa verið rakin í dag, m.a. að ekki megi láta af höndum, selja eða framselja varanlega auðlindir sem eru í þjóðareigu og sömuleiðis að einungis megi láta afnotaréttinn af hendi tímabundið og gegn gjaldi. Þetta skiptir ákaflega miklu máli. Hvað veldur því að síðan er kippt í einhverja spotta? Það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er að gæta sérhagsmunanna, hann er að gera það. En á þessum tíma í starfi nefndarinnar hefði Framsóknarflokkurinn ekki þurft annað en blaka auga til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði óhjákvæmilega orðið að verða sammála tillögu af þessu tagi en það gerði Framsóknarflokkurinn ekki. Þetta nefni ég vegna þess að mér finnst, þó ég sé stjórnarandstæðingur, að Framsóknarflokkurinn hafi ekki komið fram af fullum heilindum, alls ekki gagnvart sínum samstarfsflokki en ekki heldur gagnvart okkur sem börðumst fyrir þessu máli í stjórnarskrárnefnd.

Mér finnst það lykilmál í þessari umræðu að fram komi rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að hafa ekki í því ákvæði sem hér liggur fyrir það sem var meginkjarninn í tillögunni sem við félagarnir í undirhópi stjórnarskrárnefndar, ég og hv. þm. Bjarni Benediktsson, vorum sammála um og síðan allir utan einn í auðlindanefnd árið 2000 — og það er vert að rifja upp að sá sem smíðaði rökin fyrir tillögunni frá auðlindanefnd árið 2000 var fulltrúi framsóknarmanna, Eiríkur Tómasson prófessor og fremsti spekingur okkar í stjórnskipunarfræðum. Hann bjó til þau rök. Þess vegna reka enn brýnni nauður en ella Framsóknarflokkinn til að skýra af hverju grundvallarþættirnir sem þar var að finna eru horfnir út.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í dag að í því ákvæði sem hér er til umræðu væri að finna kjarnann úr auðlindatillögunni frá árinu 2000. Herra forseti. Þetta er tóm vitleysa hjá hæstv. forsætisráðherra. Hann er það greindur og upplýstur maður að hann hlýtur að vera að tala gegn betri vitund. Það eru þrír þættir sem eru sameiginlegir bæði í tillögu auðlindanefndar og undirhópsins sem starfaði undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, sem nota bene skilaði einungis vinnuskjali sem sumir hafa kallað formlegt en það hafði ekki aðra stöðu en vinnuskjal svo öllu sé til haga haldið. Vinnuskjal til stjórnarskrárnefndarinnar sjálfrar.

Tillögurnar eiga þrennt sameiginlegt. Í fyrsta lagi var skýrt skilgreint að einungis réttindi og auðlindir sem ekki væru háðar einkaeignarrétti féllu undir þjóðareign. Í öðru lagi var rækilega tekið fram í meginákvæði beggja tillagnanna að það sem fellur undir þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi. Í þriðja lagi er skýrt tekið fram í báðum þessum tillögum að einungis mætti veita heimild til að nýta auðlindir að því tilskildu að heimildin væri tímabundin eða henni mætti breyta með hæfilegum fyrirvara. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, verður að skýra út fyrir okkur sem hann er að kalla til samstarfs í dag um þetta mál af hverju þessi lykilatriði eru tekin út úr frumvarpinu. Ég viðurkenni fúslega, herra forseti, að ég les þá staðreynd að þessir lykilþættir eru teknir út úr frumvarpinu saman með því sem segir í athugasemd við 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.“

Þetta er algert lykilatriði fyrir mig vegna þess að ég les þetta saman þannig að þetta frumvarp sé í reynd útbúið mjög sniðuglega til að geta þjónað tveimur herrum, tvenns konar markmiðum, þ.e. að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra getur sagt með nokkrum rökum að frumvarpið veiti ekki óafturkallanlegt forræði yfir auðlindum til nokkurra einstaklinga en á hinn bóginn geti hæstv. forsætisráðherra eða hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem segir að þetta sé þykjustufrumvarp, sagt að þetta breyti ekki neinu í krafti þessarar setningar sem er mikilvægur skýringartexti við ákvæðið sjálft og segir bókstaflega talað að með frumvarpinu sé ekki haggað við afnotaréttindum þeirra sem stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda. Með þessu tel ég að það sé erfitt að hrekja þá ályktun að með þessu sé verið að búa til frumvarp sem sé á þann veg að þegar tímar líða geti sumir beinlínis sagt að yfirráð nokkurra einstaklinga sem nú hafa með kvótann að gera séu í reynd orðin stjórnarskrárvarin. Það er það sem ég hef mest við þetta að athuga.

Þegar ég les frumvarpið er það sérstaklega vont, finnst mér, að lesa mismunandi texta í greinargerð, texta sem ganga í þveröfuga átt. Þetta sést, herra forseti, á því að bera saman nokkrar setningar. Á tveimur stöðum í frumvarpinu er fjallað um heimildir til að nýta auðlindir og giska sterklega er sagt að eðli máls samkvæmt leiði slíkar heimildir, eins og formaður Framsóknarflokksins hefur undirstrikað, ekki til óafturkallanlegs forræðis einstakra aðila yfir þeim. Síðan stendur í textanum að ákvæði frumvarpsins eigi ekki að hagga við afnotaréttindum þeirra sem stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda. Það er meira að segja hnykkt á þessu, herra forseti, með því að vísa í eignarréttarákvæði í 72. gr. Þegar ég les þetta saman við það sem búið er að taka úr því sem Framsóknarflokkurinn áður taldi að væri lykilatriði velti ég því fyrir mér, þarna eru tvær mögulegar skýringar á ákvæðinu, hvora skýringuna á að taka gilda. Hvort ber að skilja ákvæðið þannig að menn eignist ekki óafturkallanlegt forræði yfir auðlindunum eða þannig að ekki verði haggað við núverandi veiðiheimildum? Þetta gengur í tvær áttir og það er ekki hægt að skýra ákvæðið á báða þessa vegu. Það er gert í greinargerðinni og það er ég ósáttur við. Ég tel að það skapi enn frekari óvissu.

Þessir textar liggja í gerólíkar áttir, þeir tryggja gerólík réttindi, annars vegar ákveðin forréttindi þeirra sem hafa veiðiheimildir í dag og hins vegar það sem ég hef sjálfur kallað almannahagsmuni. Það er hægt að túlka þetta algerlega út frá því á hvorum vængnum maður stendur og það er þess vegna sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gat alveg sagt það sem hann sagði í sjónvarpsþætti með mér á föstudagskvöldið, að þetta væri bara þykjustufrumvarp og það breytti ekki neinu. Mér finnst, herra forseti, að túlkun hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sé í versta falli rétt en í besta falli er ákvæðið með núverandi skýringum algerlega merkingarlaust. Mér finnst sem sagt að það sé til þess fallið að auka réttaróvissu en ekki að draga úr henni.

Í dag er það þannig að það er alveg skýrt, bæði samkvæmt dómnum sem vísað var í frá árinu 2000 og samkvæmt álitsgerðinni sem Þorgeir Örlygsson og Sigurður Líndal veittu 1998 til auðlindanefndar, að ef aðstæður breytast væri t.d. hægt með lögum að gerbreyta núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Það væri t.d. hægt að gefa frjálsar veiðar á einstökum tegundum, jafnvel frjálsar veiðar á öllum tegundum ef þannig aðstæður skapast. Þetta segja Sigurður Líndal og Þorgeir Örlygsson fullum fetum svo fremi sem það sé gert með löngum aðdraganda. Mér finnst hins vegar að greinargerðin gefi ekki tilefni til þess að standa undir þessari túlkun og það er það sem ég sjálfur geri að meginágreiningi við þetta fyrir utan að mér finnst að hugtakið þjóðareign sé óskilgreint. Það er einungis sagt að með hugtakinu þjóðareign sé lögð áhersla á sameiginlega hagsmuni allra Íslendinga. Frumvarpið er útþynnt enn frekar með því að hugtakið náttúruauðlindir er heldur ekki skilgreint. Einungis er sagt að það taki til hvers kyns náttúrugæða án tillits til þess hvort um er að ræða auðlindir sem séu beinlínis háðar einkaeignarrétti eða auðlindir sem enginn á. Það þýðir að sauðkindin og hænsnin á næsta bæ eru allt í einu búin að fá sérstakan sess í stjórnarskránni af því að það eru auðlindir sem mér finnst þó ekki koma þessu máli neitt við. Það þarf að skýra það sérstaklega af hverju þessi sérkennilega skilgreining er á náttúruauðlindum? Af hverju er þjóðareign ekki skilgreind?

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sagt að hann vilji samstarf og ég get alveg sagt það fullum fetum að hæstv. ráðherra lýsti áðan frumvarpi og ákvæði með ákveðnu innihaldi sem ég tel að sé ekki bara skref í átt að sameiginlegri niðurstöðu heldur stökk. Ég tel að ekki vanti mikið upp á að ég gæti stutt það, og við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni, sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lýsti áðan ef það væri gætt í búning frumvarpsákvæðis. Þetta er þess vegna eitt af því sem þarf að skoða. Ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er að meina það sem hann sagði hér áðan þá er grundvöllur til að ná saman um þetta. Ég er búinn að berjast árum saman fyrir þessu ákvæði. Þetta er það sem ég lagði mesta áherslu á sem fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórnarskrárnefnd en ég vil ekki að það ákvæði sem við samþykkjum að lokum sé verra en núverandi staða. Það má ekki skilja okkur eftir í þeirri trú að allt í einu sé hægt að verja t.d. núverandi stjórnkerfi fiskveiða með betri hætti en hægt er í dag. Útgerðarmenn hafa rök, tætingsleg að vísu, sem þeir finna stoð hér og hvar í lögum og hefð en ef þetta er komið inn í stjórnarskrá óttast ég að þeir hafi miklu sterkari rök og því er ég á móti. Þess vegna segi ég: Ég er reiðubúinn til samstarfs við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á grundvelli þess innihalds sem hann lýsti áðan.