133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:12]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti, góðir landsmenn. Nú þegar komið er að lokum kjörtímabilsins og alþingiskosningarnar fram undan er rétti tíminn fyrir eldhúsdagsumræðu og pólitíska hreingerningu, gera upp kjörtímabilið og draga fram verkefnin fram undan.

Fyrsta verkefnið verður að þvo af okkur ósómann af Íraksmálinu, draga Íslendinga út úr hópi hinna fúsu stríðsþjóða og lýsa yfir andstöðu við feigðarflan Bandaríkjamanna í Írak. Að undanförnu hefur því verið haldið fram af einstökum ráðherrum að stuðningurinn hafi að vísu verið mistök, en hafi verið rétt ákvörðun byggð á röngum forsendum. Þessu er ég algerlega ósammála, allar forsendur málsins lágu fyrir í upphafi.

Yfirlýsingar ráðherranna eru hins vegar til marks um að þeir þora ekki eða vilja ekki viðurkenna að þeir tóku og studdu ranga ákvörðun vitandi vits. Þeir tóku ranga ákvörðun en brestur kjark til að viðurkenna það og reyna að telja þjóðinni trú um að þeir hafi gert rétt en verið blekktir með röngum forsendum. Þetta dugar ekki, ráðherrarnir verða að ganga alla leið, viðurkenna mistök sín og biðja íslensku þjóðina afsökunar á þeim.

Í hinni pólitísku hreingerningu sem fram undan er þarf að gera upp við stjórnarhætti valdsmannanna sem í Íraksmálinu fóru gegn lögum og sniðgengu utanríkismálanefnd Alþingis og fóru gegn þingræðinu og tóku ákvörðun um stuðning án samráðs við þingflokka og gengu gegn skýrum almannavilja, sem í fjölmiðlamálinu breyttu Alþingi í verkfæri sem var beitt til að ná sér niðri á einstaklingum og fyrirtækjum sem forustumönnum ríkisstjórnarinnar var í nöp við, valdsmanna sem lögðu niður Samkeppnisstofnun eftir að stofnunin hafði sektað olíufélögin fyrir verðsamráð gegn almenningi, valdsmanna sem einkavæddu verðmætar ríkiseignir eftir starfsreglum sem ráðherrarnir sjálfir settu og gátu sveigt og beygt eftir hentugleika hverju sinni, valdsmanna sem leyndu Alþingi upplýsingum í Byrgismálinu og kepptust við að vísa frá sér ábyrgð, og loks þegar ekki varð lengur undan því vikist að viðurkenna að lög voru sniðgengin sögðust axla ábyrgð með því einu að lýsa því yfir að framvegis yrði lögum fylgt.

Ég held að almenningur vilji ekki svona stjórnvöld og vilji ekki þingmenn sem líta á það sem hlutverk sitt að vera í slíku liði og spila með valdinu hvað sem öðru líður. Ég held að almenningur vilji kjósa sér þingmenn sem verja almannahagsmuni fyrir sérhagsmunum og geri ríkisstjórn á hverjum tíma að starfa eftir þeim leikreglum sem settar hafa verið.

Virðulegi forseti. Það verkefni sem er fram undan er að sjá til þess að helstu auðlindir landsmanna verði áfram sameign þjóðarinnar og það tryggt að arðurinn af nýtingu þeirra verði nýttur í almannaþágu. Mikil verðmæti eru í orkuauðlindinni og þau munu fara vaxandi á komandi árum. Þeir sem munu fá að nýta þá auðlind í framtíðinni verða að greiða fyrir það til almennings. Eðlilegt er að orkan sé nýtt til atvinnuuppbyggingar heima í héraði og arðurinn af nýtingunni skiptist milli ríkis og sveitarfélaga. Orkan í Þingeyjarsýslunum á að vera bæði landsmönnum öllum og Þingeyingum til gagns, svo dæmi sé nefnt.

Á næsta kjörtímabili mun það ráðast hvort réttindin sem ríkið ræður yfir verði komin til einkaaðila um sölu Landsvirkjunar eins og ríkisstjórnin áformar eða hvort tekst að almannavæða arðinn af orkuauðlindinni. Þessi réttindi eru gríðarlega verðmæt og fyrir nýtingu þeirra verða greiddir tugmilljarðar króna á hverju ári, rétt eins og nú er gert í sjávarútvegi. Það sér hver maður að þeirri óhæfu sem viðgengst þar verður að linna. Áætlað er að bestu manna yfirsýn að lítið sjávarþorp á Vestfjörðum greiði árlega um hálfan milljarð króna fyrir leigu á veiðiheimildum og aðra álíka fjárhæð fyrir þær veiðiheimildir sem hafa verið keyptar á undanförnum árum. Þessir peningar renna ekki til viðkomandi sveitarfélags eða ríkisins til brýnna samfélagslegra verkefna. Nei, öðru nær. Sá sem fær peninginn í sinn vasa hefur engar skyldur og borgar litla skatta af tekjunum. Kannski engan skatt ef hann nýtir sér rúm lagaákvæði um frestun skattgreiðslna.

Leiguútgerðarmaðurinn greiðir stærstan hluta tekna sinna sem hann fær fyrir að veiða og selja fiskinn til leigusalans. Hann heldur kannski eftir um þriðjungi af tekjunum og þarf að greiða af því bæði laun og allan kostnað við útgerðina. Svona fyrirkomulag í einni atvinnugrein er nú til dags algjörlega óþekkt í hinum vestræna heimi þar sem menn vilja byggja velferð almennings á atvinnufrelsi einstaklinga. Ég gæti sem best trúað að fógetinn í Nottingham sem við þekkjum úr sögubókum um Hróa hött og félaga hans hafi aldrei náð viðlíka arðráni eins og viðgengst í íslenskum sjávarútvegi.

Það þarf engan að undra að sjávarbyggðir landsins séu í miklum vanda. Kallað er eftir sértækum aðgerðum á Norðurlandi vestra, og á Vestfjörðum sjá menn fram á hrun byggðanna á næstu árum að óbreyttu.

Á þeim 12 árum sem núverandi ríkisstjórn hefur verið við völd hefur fólki fækkað um 21% á Vestfjörðum. Neyðarkalli forustumanna sveitarfélaganna um aðgerðir til úrbóta í atvinnu- og samgöngumálum er svarað eftir fimm vikur — með því að skipa nefnd. Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar er best lýst með vaxtarsamningunum sem hún býður fram. Fjárhæðin til atvinnuuppbyggingar sem stendur til boða er svo hraksmánarleg að á Norðurlandi vestra neita sveitarstjórnarmenn að skrifa undir samning. Á Vestfjörðum leggur ríkisstjórnin til heilar 10 millj. kr. á ári í þrjú og hálft ár. Af einhverjum óþekktum ástæðum telja ráðherrarnir að hægt sé að vinna þrekvirki í atvinnumálum fyrir upphæð sem dugar ekki fyrir kjallaraíbúð í Reykjavík.

Það þarf vaxtarsamning þessarar ríkisstjórnar í heila öld til að ná 1 milljarði kr. til atvinnuuppbyggingar, og það er samt ekki nema 0,5% af þeirri fjárhæð sem álversuppbyggingin á Austurlandi kostar. Það mun taka 200 aldir fyrir Vestfirðinga að safna fyrir einu álveri. Ég er hræddur um að jafnvel Þyrnirós verði orðin útsofin ef það á að bíða eftir ríkisstjórninni. Landsmenn hafa ekki til þess tíma að bíða eftir stjórnarflokkunum. Það er eitt af verkefnunum fram undan að skipta um ríkisstjórn, á um það verður tekist í komandi alþingiskosningum.

Kostirnir eru skýrari en oftast nær áður.

Að mörgu leyti eru svipaðar aðstæður uppi og voru 1971 eftir 12 ára setu viðreisnarstjórnarinnar. Stjórnarflokkarnir eru nú staðráðnir í því að halda áfram enn eitt kjörtímabilið og halda áfram einkavinavæðingu sinni og sérhagsmunagæslu. Frjálslyndi flokkurinn mun leika lykilhlutverk í komandi alþingiskosningum. Ef honum mun ganga vel mun ríkisstjórnin falla. Ef honum gengur síður á ríkisstjórnin möguleika á að halda velli. Stjórnarandstaðan á það sameiginlega verkefni fram undan að fella ríkisstjórnina frá völdum og taka við. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.