133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

þingstörfin fram undan.

[11:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það mun ekki standa á okkur í stjórnarandstöðunni að greiða fyrir þingstörfum til þess að hægt sé að ljúka þeim málum sem sátt næst um, en til þess að sátt náist þurfa menn að tala saman. Það er út af fyrir sig ágætt að hæstv. forsætisráðherra hlutist til um að hér verði haldnir fundir með oddvitum þingflokka, og flokka eftir atvikum, til að reyna að ná þeirri sátt. Ekki hefur enn verið boðað til neins fundar um það. Hins vegar vildi ég benda hæstv. forseta á að enn starfar sérnefnd um stjórnarskrármál og hún hefur ekki enn lokið fyrstu yfirferð sem felst í því að kalla fyrir nefndina ýmsa sérfræðinga. Hefur ekki verið hlaðið á nefndina neinum miklum óskum af okkur í stjórnarandstöðunni. Það eru aðrir sem hafa haft veg og vanda af því.

Það er hins vegar alveg ljóst að ef nefndin á að geta lokið störfum þarf hún að fá verulegt rými til að geta farið yfir þau gögn sem henni hafa borist og umsagnir, og freista þess eftir atvikum að ná samstöðu um málið. Það vantar ekki viljann hjá okkur í stjórnarandstöðunni til þess. Það kann að vera að hann skorti einhvers staðar annars staðar. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. forseta hvort hún hygðist með einhverjum hætti fresta fundum þingsins í dag til að gefa stjórnarskrárnefndinni færi á að hittast — eða hvenær á að leyfa sérnefndinni að fá tíma til að fara yfir þessi mál? Í fyrsta kasti þarf hún að ljúka því að kalla fyrir sig ýmsa aðila sem nefndarmenn hafa óskað eftir en hún á síðan algerlega eftir að ræða málið. Til þess þarf hún drjúgan tíma sýnist mér miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið innan nefndarinnar. Á þetta vildi ég í fullri vinsemd benda hæstv. forseta til þess að sjálfsögðu að greiða fyrir þingstörfum.