133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[11:48]
Hlusta

Frsm. minni hluta landbn. (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá minni hluta landbúnaðarnefndar. Megináhersla og markmið Samfylkingarinnar er að stuðningur við landbúnaðinn nýtist bændum og íslenskum neytendum, skapi framþróun í greininni og sé árangursríkur stuðningur við atvinnulíf á landsbyggðinni.

Samningur sá milli ríkis og Bændasamtaka Íslands frá 25. janúar sl. um starfsskilyrði sauðfjárræktar sem er grundvöllur þessa frumvarps nær hvorki markmiðum um aðlögun greinarinnar að innlendum markaði né um nýbreytni í atvinnulífsmálum dreifbýlisins og skilur bændur eftir í óvissu um kjör sin þegar útflutningsskyldu verður aflétt árið 2009. Ekki verður séð að markaðsstarf erlendis skili bændum tekjum fyrir framleiðslu sína og útflutningur því hvorki til hagsbóta fyrir bændur né neytendur.

Samfylkingin styður beinan stuðning við landbúnað en gerir skýra kröfu um árangur, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Stuðningurinn verður að skila sér í góðri afkomu bænda og lágu verði til neytenda. Þau markmið vill Samfylkingin tryggja með gerð slíkra samninga.

Rétt hefði verið við gerð samningsins að stíga frekari skref í átt að óframleiðslutengdum stuðningi við búvöruframleiðslu og gerð samninga um nýsköpun í atvinnustarfsemi í dreifbýli landsins.

Markmiðsgreinar frumvarpsins eru jákvæðar en stangast á innbyrðis, t.d. er vandséð hvernig það fer saman að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein á sama tíma og offramleiðsla er í greininni fyrir íslenskan markað og að erlendir markaðir skili ekki viðunandi verði fyrir framleiðendur. Hvernig á að efla markaðsvitund innan greinar sem er jafnframleiðslustýrð og samningurinn ber vitni um? Hvernig á að skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar þegar útflutningsskyldu hefur verið aflétt án þess að framleiðslan minnki? Og hvernig er þá fyrirhugað að tryggja sauðfjárbændum viðunandi afkomu? Engar áætlanir eru uppi um hvernig upplýsingar um árangur gæðastýringar í sauðfjárrækt og um uppruna afurðarinnar eiga að berast til neytenda sem er þó neytendum áhuga- og hagsmunamál. Hvorki eru ákvæði í samningnum um stuðning við nýmæli í landbúnaðarframleiðslu né þróun heimagerðra afurða sem bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn sækjast þó eftir.

Niðurfelling útflutningsskyldu er jákvæðasta ákvæði þessa samnings fyrir íslenska neytendur en skapar um leið óvissu fyrir framleiðendur. Þeirri óvissu þarf að létta án þess að skapa hættu á verðhækkun á innanlandsmarkaði.

Ámælisvert er að verið er að binda hendur tveggja næstu ríkisstjórna þrátt fyrir að samningurinn eigi ekki að ganga í gildi fyrr en átta mánuðum eftir að ný ríkisstjórn tekur við völdum. Landbúnaðarnefnd kom ekkert að málum á vinnslustigi samningsins, engin umræða var í nefndinni um markmið með samningnum eða útfærslur hans.

Að þessu áliti standa Anna Kristín Gunnarsdóttir, Einar Már Sigurðarson og Jóhann Ársælsson.