133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

opinber innkaup.

277. mál
[18:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um opinber innkaup, mikill lagabálkur og að mörgu leyti vandað frumvarp sem byggist á mikilli vinnu. Ég geri athugasemdir við þær forsendur sem frumvarpið er reist á að sumu leyti. Með frumvarpinu eru settar reglur sem eiga að gilda um ríkisstofnanir sem bjóða út starfsemi sína. Ég er sammála því að um það þurfi að gilda skýrar og gagnsæjar reglur. En í ljósi þeirrar einkavæðingaráráttu sem hefur fest rætur í Stjórnarráði Íslands hlýtur maður að skoða þetta frumvarp með hliðsjón af reynslunni.

Eitt af því sem ég staldra við í upphafi er hið mikla vald sem fært er til ráðherra um að bjóða út starfsemi. Ég vek t.d. athygli á niðurlagi 21. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum sé skylt að bjóða út innkaup sín eða gera þau í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um V. kafla laganna.“

Ráðherra getur með öðrum orðum með miðstýrðu reglugerðarvaldi ákveðið að ríkisstofnanir bjóði út þess vegna alla starfsemi sína. Finnst mönnum þetta vera eðlilegt? Er þetta í anda þeirrar valddreifingar sem stundum er boðuð að stofnanir geti sjálfar tekið ákvörðun um með hvaða hætti þær skipuleggja starfsemi sína?

Við höfum fylgst með því hvernig þrengt var að Húsnæðisstofnun t.d. eða Íbúðalánasjóði, eins og hann heitir núna, þar sem pólitísk yfirvöld vildu þrengja að þeirri stofnun, gengu þar erinda bankanna sem hafa ásælst íbúðalánamarkaðinn. Þar var ekkert spurt hvað væri hagkvæmast fyrir Íbúðalánasjóð. Þar var bara spurt hvað þjónar pólitískum markmiðum, hinni pólitísku lund Sjálfstæðisflokksins í því sambandi.

Finnst okkur þess vegna eðlilegt að festa það í lög um opinber innkaup að ráðherra, þess vegna ráðherra Sjálfstæðisflokksins, einkavæðingarráðherra, fái reglugerðarvald til að skipa ríkisstofnunum sem heyra undir ráðuneyti hans að einkavæða starfsemi sína? Ég hef um þetta miklar efasemdir.

Síðan er hitt og það er hin hliðin á þeim peningi að ef á annað borð er ráðist í útboð er ekki óeðlilegt að um það gildi gagnsæjar reglur. Reyndar er það eitt sem menn voru ekki alveg sáttir við í umfjöllun og afgreiðslu málsins að hið sama er ekki látið ganga yfir sveitarfélögin sem líka eru opinberir aðilar og látið er ganga yfir ríkið. Sveitarfélögin andmæltu því mjög að þau heyrðu undir þessi lög en lýstu því þó yfir, eða fulltrúi sveitarfélaganna, að þau teldu eðlilegt að þau settu sér reglur hvað útboð snertir.

Nú er ég ekki þeirrar skoðunar að það eigi að vera skylt undir öllum kringumstæðum að bjóða öll verk sveitarfélaga á Íslandi út, þess vegna á hinu Evrópska efnahagssvæði eins og okkur ber að gera. Það geta verið aðstæður uppi í sveitarfélagi þar sem það vill beina viðskiptum til fyrirtækja sem eru á svæðinu. Ég er alveg opinn fyrir þeirri hugsun. Þegar á hinn bóginn ráðist er í útboð er eðlilegt að um það gildi gagnsæjar og skýrar reglur. Þetta er nokkuð sem kom fram í nefndinni.

Síðan er það sem er náttúrlega verst að þættir sem ég tel að ættu að vera samþættir inn í allt þetta frumvarp eru þar aðeins í eins konar aukasetningum. Ég er að tala um umhverfisþætti og félagslega þætti. Áherslan í frumvarpinu er á verðlag fyrst og fremst en ekki á þá þætti sem verkalýðshreyfingin í Evrópu og á Íslandi hefur lagt áherslu á.

Mig langar í þessu sambandi til þess að vísa í mjög ítarlegar og efnismiklar athugasemdir sem efnahags- og viðskiptanefnd barst frá BSRB. Í umfjöllun BSRB segir m.a. með leyfi forseta:

„Með nýju frumvarpi um opinber innkaup, byggðu á tilskipun Evrópusambandsins um sama efni, gefst tækifæri til að styðja ný sjónarmið og nýtt gildismat í innkaupum opinberra aðila þar sem aukin áhersla er lögð á sjálfbæra þróun og félagsleg gildi. Þó það sé vissulega mikilsvert að öllum þeim sem bjóða í verk eða þjónustu sé gert jafnhátt undir höfði að gefnum þeim forsendum sem kaupandi (hið opinbera) vill að séu uppfylltar, þá ber að hafa í huga að í raun er kaupandi að uppfylla þarfir almennings með kaupunum og þær þarfir séu fjölbreyttari en svo að skynsamlegt sé að einvörðungu sé beitt mælistiku „fjárhagslega hagkvæmasta kostsins“ eða að ódýrasta tilboði sé tekið. Stjórnvöld geta, án þess að meginreglur um jafna aðstöðu bjóðenda eða kröfum um gegnsæi sé fórnað með nokkrum hætti, nýtt sér opinber innkaup í þágu umhverfisstefnu, lýðheilsu, félagslegrar samhæfingar, atvinnumála og réttinda launafólks svo dæmi séu tekin. Ljóst er að stefna í opinberum innkaupum er öflugt stjórntæki enda eru kaup ríkisins á vöru og þjónustu talin nema um 90 milljörðum króna á ári eða sem svarar um 58% af útgjöldum ríkissjóðs vegna rekstrar og fjárfestinga. Þá má ekki gleyma innkaupum á vegum sveitarfélaganna.“ — Segir í þessari álitsgerð frá BSRB um frumvarpið.

Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði í löggjöf um opinber innkaup geta haft jákvæð eða neikvæð áhrif á að markmið sjálfbærrar þróunar náist þar sem opinber innkaup vega þungt í hagkerfinu. Möguleikar á að setja kröfur t.d. um strangari hávaðamörk, minni losun koltvíoxíðs, að réttindi launafólks séu virt sem og reglur um aðbúnað á vinnustað, um aðgengi fatlaðra, sanngjörn viðskipti og um atvinnu þeirra sem standa höllum fæti, geta leitt til aukinnar sjálfbærni og breytt viðmiðunum hvort sem er í opinbera eða einkageiranum. Opinber yfirvöld bera mikla ábyrgð á að allir borgarar njóti fjárfestinga þeirra, að þeir búi í félagslega og umhverfislega heilbrigðu samfélagi þar sem allir eru taldir með og njóti atvinnu og félagslegrar verndar. Ef þessi atriði eru ekki höfð í huga í upphafi innkaupaferlis er hætta á að kostnaður þjóðfélagsins verði hærri en ella.

Þau jákvæðu áhrif sem þannig má ná fram með víðsýnni stefnu í opinberum innkaupum einskorðast ekki við Ísland heldur hafa þau áhrif um heiminn allan að segja má þar sem aðföng opinberra aðila á Íslandi eiga uppruna sinn að miklu leyti í öðrum löndum. Þannig má setja viðmið af siðrænum toga og umhverfislegum við innkaup og hægt er t.d. að takmarka innkaup við þá aðila sem sannarlega virða launakjör og réttindi launafólks við framleiðslu eða framkvæmd, sama hver sem uppruni aðfanganna er.

Tilskipun Evrópusambandsins um opinber innkaup og frumvarp ríkisstjórnarinnar um sama efni opna á möguleika í þessa átt sem BSRB fagnar og leggur ríka áherslu á að verði nýttir til fulls. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að sem skýrast verið kveðið að orði í lagafrumvarpinu í þessum efnum. Þar skortir nokkuð á.

Þá er ekki óeðlilegt að ætla að ný lagasetning um opinber innkaup kalli á endurskoðun á innkaupastefnu og útvistunarstefnu ríkisins eftir því sem tilefni eru til og endurskoðun á áherslum í stefnu og starfi Ríkiskaupa, jafnframt sem hugað verði að samræmdri framkvæmd slíkra mála á vettvangi sveitarfélaga.“

Síðan er spurt í þessari álitsgerð, með leyfi forseta:

„Er kröfum félagasamtaka um félagslegar, siðrænar og umhverfislegar áherslur í opinberum innkaupum fylgt?

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar, eins og frá Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC), Evrópusambandi starfsfólks í almannaþjónustu (EPSU), en BSRB á aðild að þessum samböndum báðum, GMB í Bretlandi, samtaka fatlaðra í Evrópu, (European Disability Forum) sem Öryrkjabandalag Íslands er aðili að, Eurocities, The European Environmental Bureau, European Fair Trade Association og fleiri félagasamtaka, eru þær að einstök ríki nýti sér til fulls það svigrúm sem tilskipunin um opinber innkaup gefur yfirvöldum að taka tillit til umhverfis, félagslegra og siðrænna þátta í innkaupum og þess verði krafist að farið verði að lögum um félagsmál og umhverfismál og eftir alþjóðlegum sáttmálum. Krafa ofangreindra samtaka, og þar er BSRB á sama máli, er að þetta verði gert algjörlega skýrt í lögum hvers lands um opinber innkaup.

Víða í tilskipun Evrópusambandsins um opinber innkaup er að finna heimildir til að taka tillit til slíkra þátta og um leið er svigrúm fyrir einstök þjóðríki sem innleiða tilskipunina til að skýra þessar heimildir og skerpa í landslögunum.“

Þetta er ekki gert í frumvarpinu í nægilega ríkum mæli nema síður sé.

Í álitsgerðinni eru síðan ábendingar þar sem lagðar eru til breytingar á einstökum greinum frumvarpsins og má nefna t.d. 43. gr., þar sem segir:

„Kaupanda er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði, einkum varðandi félagsleg og umhverfisleg atriði, sem tengjast framkvæmd samnings, enda séu þessi skilyrði í samræmi við reglur EES-samningsins og hafi verið tilgreind í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum.“

Hvers vegna á að orða greinina á þann hátt, að kaupanda sé heimilt að gera þetta? Hér vil ég taka undir það sem fram kemur í álitsgerð BSRB, að eðlilegt væri að breyta orðalagi þessarar greinar og segja, með leyfi forseta:

„Kaupandi skal kveða á um sérstök skilyrði, einkum varðandi félagsleg og umhverfisleg atriði, sem tengjast framkvæmd samningsins.“

Hvers vegna er ekki hægt að hafa orðalag greinarinnar með þessum hætti ef við viljum á annað borð styrkja hin félagslegu sjónarmið og umhverfisþættina og gera þá að forsendum í útboðsstefnu hins opinbera? Það er greinilega ekki vilji til þess af hálfu meiri hlutans á Alþingi.

Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég tel að frumvarpið eigi að bíða. Ég tel að frumvarpið eigi að bíða þar til eftir komandi alþingiskosningar. Mér finnst alveg fullkomlega óásættanlegt að setja ríkisstofnunum reglur um útboð með ríkri reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að skipa ríkisstofnunum að bjóða út alla starfsemi sína, einkavæða hana, og forsóma síðan algjörlega þá þætti sem ég er að vekja athygli á, umhverfið, umhverfisþættina og hina félagslegu þætti.

Nei. Það segir í lagagrein að fyrirtækjum sé heimilt að horfa til félagslegra þátta og umhverfisþátta en ekki skylt, eins og verkalýðsfélögin um alla Evrópu og samtök fatlaðra eru að óska eftir og er hægt að gera ef vilji löggjafans er fyrir hendi.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort ráðgert sé, eins og mér var sagt, að gera hlé á þessum fundi í kvöldmatartímanum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill upplýsa að gert er ráð fyrir kvöldmatarhléi núna frá klukkan sjö til klukkan hálfníu.)

Það er langt í frá að ég hafi lokið ræðu minni.

(Forseti (ÞBack): Þá óskar forseti eftir því að hv. þingmaður geri hlé á ræðu sinni og taki til við framhald ræðu sinnar að þingfundarhléi loknu eða þegar málið verður tekið aftur á dagskrá.)