133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[20:52]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við höfum á undanförnum dögum og ekki síst núna í dag orðið vitni að mjög undarlegri atburðarás. Eins og menn muna gerðist það hérna fyrir viku síðan, nákvæmlega á fimmtudaginn í síðustu viku, að dreift var í þinginu með miklum lúðrablæstri frumvarpi til stjórnarskipunarlaga þar sem fyrsti flutningsmaður var hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og meðflutningsmaður formaður Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Þá höfðu þessir tveir flokkar komið sér saman um það, að því er þeir sögðu á blaðamannafundi og við okkur formenn stjórnmálaflokkanna, að gera breytingu á stjórnarskránni. Þeim var auðvitað bent á það strax í upphafi að breytingartillaga þeirra sem þá lá fyrir stæðist hvorki að formi né innihaldi. Og ef hún yrði að veruleika mundi skapast hér mikil réttaróvissa.

Nú hefur þetta verið staðfest af öllum þeim sérfræðingum sem hér hafa verið kallaðir til. Engu að síður var ákveðið að setja þetta sjónarspil allt af stað. Þetta var sjónarspil, hæstv. forseti, þar sem bæði þing og þjóð var haft að fífli. Það eru kallaðir til sérfræðingar, safnað saman gögnum, fólk var látið verja í þessa vinnu hundruðum vinnustunda en það var aldrei meiningin hjá þessum flokkum að gera neitt með þetta. Þetta var sjónarspil til að reyna að bæta eitthvað stöðu sína í augum þjóðarinnar á síðustu dögum þingsins. Það er örvæntingarfull ríkisstjórn sem þannig stendur að verki.

Virðulegur forseti. Ég segi bara: Lengi skal manninn reyna. Gleymum því ekki hver var fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps. Það var hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins. Gleymum því ekki hver var meðflutningsmaður. Það var hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Hvað með …?) Þeir koma hér með stjórnarskrártillögu sem hefði gert það eitt að skapa réttaróvissu í landinu. Þeir gera það þegar fjórir þingdagar eru eftir. (Gripið fram í: Hvað með …?) Svona haga menn sér ekki. (Forseti hringir.) Svona umgangast menn ekki lýðræðið, hæstv. forseti.