133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[21:11]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig gott að það skuli vera hægt að hlæja í þingsalnum í kvöld. Kannski má hafa eitthvert gaman af þeim skringilegheitum sem hafa verið í kringum þetta mál. Fram hjá hinu verður þó ekki litið að það er mjög alvarlegt hvernig staðið hefur verið að málum í þinginu á undanförnum dögum og hvernig formenn tveggja stjórnarflokka, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ætluðu sér að umgangast stjórnarskrána hér á þessum síðustu dögum þingsins.

Ég hef orðið vör við það að ýmsir ungir lögspekingar í hópi þingmanna sem sitja hér á fremsta bekk virðast hafa nokkurt gaman af þessu öllu saman. Það finnst mér dálítið sérkennilegt að horfa upp á, að ungir lögspekingar í hópi þingmanna skuli ekki bera meiri virðingu fyrir stjórnarskránni en raun ber vitni af þessari umfjöllun. (Gripið fram í: Er verið að ræða …?)

Það kom fram, hæstv. forseti, hér í máli iðnaðar- og viðskiptaráðherra að þeir hefðu ekki viljað knýja fram — og ég held að það hafi komið fram hjá forsætisráðherra líka — að þessir tveir menn hefðu ekki viljað knýja fram breytingu á stjórnarskránni í andstöðu við stjórnarandstöðuna, þeir hefðu viljað hafa samstöðu um málið. Nei. Þeir vildu ekki hafa neina samstöðu um málið. Þeir vildu ekki í raun og sannleika setja ákvæði inn í stjórnarskrána sem gat tryggt þjóðareign á auðlindinni svo að ekki væri hægt að framselja auðlindina með varanlegum hætti. Þeir vildu það ekki. Þess vegna settu þeir þetta sjónarspil hér á svið.

Þeir reyndu aldrei að ná samstöðu, þeir höfðu aldrei samband, hvorki formlega né óformlega, við forustuna í stjórnarandstöðunni um það með hvaða hætti væri hægt að ganga frá þessu máli. Þeir vildu enga samstöðu, þeir vildu sjónarspil, þeir fengu það og þeir hafa haft þing og þjóð að fífli í þessu máli. Þeir eru ekki menn að meiri.