133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

minning tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta.

704. mál
[22:12]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Það getur naumast verið ágreiningsefni að við Íslendingar ætlum okkur að halda á lofti minningu Jóns forseta sem svo er kallaður, Jóns Sigurðssonar forseta, og það er eðlilegt að undirbúa það vel og leita um það samstarfs við alla helstu aðila sem tengjast með einum eða öðrum hætti störfum hans eða minningu. Þá kemur náttúrlega fyrst í hug Hrafnseyri og sú starfsemi sem þar er eða aðstaða og gera má auðvitað talsvert betur við það sem þar er þó gert.

Í öðru lagi verður manni hugsað til Kaupmannahafnar og Jónshúss og hvaða verkefnum væri eðlilegt að tengja þetta hátíðarhald þar í borg og aðstöðunni í sjálfu Jónshúsi.

Í þriðja lagi eru það auðvitað störf Jóns, en hann kom víða við og það væri hægt að hugsa sér að tengja á þessum tímamótum atburði sem tengdust bókmenntaarfinum og bókaútgáfu en um það var hann eins og kunnugt er mikill áhugamaður og fékk reyndar sína forsetanafnbót í upphafi frá því að vera þar í forsvari.

Það má svo líka segja að ýmislegt sem í verkum hans, skoðunum og hugsjónum fólst verðskuldi það að því sé haldið til haga. Hann var án efa með merkari fræðimönnum á þessu sviði ef út í það er farið og lagði auðvitað grunn að sjálfstæðisbaráttunni, hugmyndafræðilegan og sögulegan grunn með ýmsum hætti sem nýttist Íslendingum vel eins og kunnugt er. Það má vel flokka hann með stórmennum sögunnar sem leitt hafa þjóðir sínar áleiðis til sjálfstæðis á friðsamlegan hátt og unnið sínum málstað með rökum og mannviti en ekki með einhverjum öðrum aðferðum. Þó að það liggi svo sem í hlutarins eðli að Íslendingar hefðu seint endurheimt sjálfstæði sitt í átökum með vopnavaldi eða öðrum slíkum aðferðum, stærðarmunar og aðstöðumunar vegna, þá er það engu að síður virðingarvert hvernig forustumenn Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni stóðu að málum og hvernig þeir undirbyggðu málstað Íslands á fræðilegan og faglegan hátt þannig að fullur sómi var alltaf að og þar ber náttúrlega nafn Jóns Sigurðssonar langhæst.

Alþingi og ríkisstjórn og stofnanir eins og Háskóli Íslands, sem var stofnaður á aldarafmæli Jóns og á þar með 100 ára afmæli 2011 eins og kunnugt er, koma því til með að eiga þarna góðan hlut að máli. Ég held að það sé þar af leiðandi ánægjulegt að á lokaþingi þessa kjörtímabils og nú á þessum dögum, sem hafa sumpart verið nokkuð stormasamir í samskiptum milli manna og flokka, sé þó eitt og eitt gott mál að fá brautargengi sem mikil sátt og eining ríkir um. Vonandi tekst þetta hátíðarhald vel og verði engar uppákomur í tengslum við það eins og hefur þó hent stundum þegar Íslendingar hafa verið að halda hátíðleg tímamót í sögu sinni og þarf ekki langt til baka til að finna viss dæmi um það. En hér ganga vonandi allir í takt og í sátt og samlyndi til þess starfs að undirbúa veglegt hátíðarhald í tengslum við 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta.