133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

minning tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta.

704. mál
[22:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vildi bara koma örstutt inn á þessa ágætu þingsályktunartillögu sem hér er flutt, tillögu til þingsályktunar um minningu tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta en 17. júní 2011 verða 200 ár liðin frá fæðingu hans. Ég tek undir að þetta er mjög góð og metnaðarfull tillaga og verðskuldað. Það sem ég vildi árétta er að þó að við höfum starfsemi til minningar um Jón Sigurðsson á fæðingarstað hans á Hrafnseyri við Arnarfjörð og að sett var á stofn safn á vegum Hrafnseyrarnefndar á Hrafnseyri 1980, og það var í sjálfu sér veglegt á sínum tíma þegar það var komið í gang, en ég verð að segja hreinskilnislega að mér finnst verulega skorta á að það sé búið út eins og skyldi. Mér sýnist að búnaður þar og sýningin hafi staðið í stað og að veruleg þörf sé á að gera átak í að efla þá sýningu, efla þá starfsemi og styrkja þá minningu sem tengd er Hrafnseyri og Jóni Sigurðssyni.

Hrafnseyri er líka merkilegur staður fyrir það að þar bjó Hrafn Sveinbjarnarson, einn af elstu læknum þjóðarinnar og hann innleiddi hér læknislist. Þó svo að hann hafi verið veginn og það hafi verið hrapalleg vígaferli á sínum tíma var Hrafn Sveinbjarnarson einn af merkilegustu mönnum síns tíma hér á landi og sú læknislist, sú kúnst og sú þekking sem hann bar inn í landið og iðkaði hér, væri virkilega þess virði að því væru gerð skil og færi vel saman að það væri tengt við starfsemina á Hrafnseyri.

Ég vil bara ítreka þetta og þó að við stefnum að því og það sé gott mál að minnast 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar 17. júní 2011 þá getum við svo sannarlega strax í dag farið að taka til hendi og vinna að því að efla stað eins og Hrafnseyri í minningu bæði Jóns Sigurðssonar og eins væri vel til fallið að á þeim sama stað væri minningu Hrafns Sveinbjarnarsonar líka gerð skil.