133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

almenn hegningarlög.

465. mál
[11:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Frumvarpið gengur út á það að bæta refsivernd lögreglunnar.

Ég vil lýsa því yfir í upphafi að ég styð frumvarpið mjög eindregið og tek þar undir sjónarmið sem fram hafa komið frá Landssambandi lögreglumanna og heildarsamtökum þeirra einnig. Landssambandið hefur sent Alþingi ítarlega greinargerð til að skýra málstað sinn og vísar til þess í greinargerðinni að í langan tíma hafi Landssamband lögreglumanna barist fyrir því að starfsumhverfi lögreglumanna verði bætt og dregið úr þeirri hættu sem felst í framkvæmd lögreglustarfa.

Í greinargerðinni er vísað í könnun sem framkvæmd var árið 2004 að beiðni Landssambands lögreglumanna, Lögregluskóla ríkisins, ríkislögreglustjóra, Sýslumannafélags Íslands og dómsmálaráðuneytis. Um var að ræða mjög víðtæka rannsókn og var öllum starfandi lögreglumönnum sendur spurningalisti sem varðar málefnið, starfsumhverfið og þá sérstaklega með tilliti til þeirrar hættu sem fylgir þessum störfum.

Markmið rannsóknarinnar var m.a. að kanna viðhorf lögreglumanna til starfsumhverfis síns og viðhorf til ýmissa mála er lúta að starfi þeirra. Ýmsar áhugaverðar niðurstöður komu úr könnuninni, en landssambandið segir að það sem mesta athygli hafi vakið að þeirra dómi hafi verið hve ógnvænlega hátt hlutfall lögreglumanna hefði orðið fyrir hótunum eða ofbeldi í starfi. Fram kom í könnuninni að 64% lögreglumanna höfðu orðið fyrir hótunum sem þeir tóku alvarlega eða að þeir voru áreittir vegna starfs síns. Þá höfðu 54% lögreglumanna orðið fyrir líkamsmeiðingum í starfi sínu. Loks kom fram að í 41% tilvika hafði hótunum eða öðru alvarlegu áreiti verið beint að fjölskyldum lögreglumanna. Ég er ekki alveg viss um að menn geri sér almennt grein fyrir þessum ógnvænlegu tölum, að í 41% tilvika hafði hótunum verið beint að fjölskyldum lögreglumanna, þar sem hótað er alvarlegu áreiti.

Í greinargerðinni segir að Landssamband lögreglumanna hafi farið þess á leit við embætti ríkislögreglustjóra í lok árs 2005 að gerð yrði samantekt um fjölda skráðra mála sem vörðuðu ofbeldi gegn lögreglumönnum og hvernig afgreiðslu málin fengju. Í eftirfarandi samantekt, og hér vísa ég í greinargerð frá Landssambandi lögreglumanna, kemur fram að í miklum meiri hluta mála hafi þeim lokið án ákærumeðferðar og dóms. Samtals voru málin á árinu 2005, óháð málsmeðferð, 60 talsins, 2004 voru þau 78, 2003 voru þau 87, 2002 voru þau 69 og 2001 voru þau 79. Í töflunni kemur fram að í verulegum mæli eru málin ekki til lykta leidd.

Landssambandið sendi hæstv. dómsmálaráðherra skýrslu þar sem gerð var grein fyrir óviðunandi vinnuumhverfi lögreglumanna og óskaði landssambandið eftir að ráðherra beitti sér fyrir að starfsumhverfi þeirra yrði bætt. Landssambandið segist hafa farið þess á leit að skoðað yrði hvort ekki þætti nauðsynlegt að herða refsingar vegna hótana og ofbeldis í garð lögreglumanna auk annarra úrræða sem líkleg væru til að ná árangri. Landssambandið hrósar hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að leggja fram þessar breytingartillögur við almenn hegningarlög sem lúta sérstaklega að vernd lögreglumanna.

Landssambandið tekur djúpt í árinni og segir, með leyfi forseta:

„Nái breytingin fram er ljóst að um mikil tímamót verður að ræða varðandi réttindabaráttu lögreglumanna og miklar líkur á að starfsumhverfi lögreglumanna batni verulega.“

Í athugasemdum við frumvarpið eru síðan reifaðar einstakar greinar þess og gerðar tillögur þar að lútandi sem ég ætla ekki að rekja í þessari stuttu ræðu minni.

Landssamband lögreglumanna hvetur til þess að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Ég ítreka stuðning minn við frumvarpið. Auðvitað hvílir geysileg ábyrgð á herðum lögreglumanna í sínu starfi og að sjálfsögðu þurfa þeir að fara mjög varlega með það vald sem þeim er falið, að það verði aldrei misnotað. Auðvitað þarf að hyggja að vernd þeirra sem taka t.d. þátt í mótmælum, andófi hvers kyns og koma þannig inn á verksvið lögreglunnar, ef við getum orðað það svo. Þarna þarf að sjálfsögðu alltaf að gæta mikillar hófsemi, en ég bendi á að lögreglumenn eru mjög meðvitaðir um þessa ábyrgð sína og minni t.d. á að Landssamband lögreglumanna hefur alltaf haft efasemdir um það, og ég veit ekki til þess að breyting hafi orðið þar á, að lögreglan bæri vopn, svo dæmi sé tekið. Lögreglumenn og samtök þeirra hafa haft efasemdir um slíka þætti.

Hitt er svo annað mál að þegar í ljós kemur í hve ríkum mæli lögreglumenn verða fyrir ofbeldi og áreiti, svo ekki sé á það minnst þegar fjölskyldur þeirra verða fyrir slíku áreiti, þegar haft er í hótunum við þær, þá ber okkur sem samfélagi að veita þeim þá lagavernd sem kostur er. Frumvarpið, þessi breyting á lögunum, hnígur í þá átt.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra um frumvarpið en lýsi yfir stuðningi mínum við það.