133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er að hefjast 3. umr. um þetta stóra mál sem gengur undir nafninu framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum. Hér er um að ræða samning ríkisvaldsins við sauðfjárbændur um fyrirkomulag á stuðningi við búvöruframleiðslu á næstu árum.

Samningurinn hefur verið gagnrýndur fyrir margt, t.d. fyrir það að hann bindi hendur næstu tveggja ríkisstjórna þar sem hann nái yfir það mörg ár og ýmis önnur atriði hafa verið gagnrýnd einnig. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir skort á lýðræðislegu samráði. Samningurinn kom fullmótaður inn í landbúnaðarnefnd Alþingis. Samráð við aðra utan bændasamtakanna og landbúnaðarráðuneytis var að sjálfsögðu of lítið. Það er sjálfsagt að vinna í samráði við aðra í málum með slíku fyrirkomulagi og þess freistað að ná sem bestri og víðtækastri sátt milli neytenda annar vegar og framleiðenda vörunnar hins vegar.

Það er mín skoðun og okkar jafnaðarmanna að styðja eigi íslenskan landbúnað beint. Það á að styðja með beinum hætti við atvinnulíf í dreifbýli og sveitum. Þess vegna styð ég að samningar eins og þessir séu almennt gerðir. Ég held að atvinnulíf og mannlíf í dreifbýli standi höllum fæti víða og tilvist þess hvílir að sumu leyti á gerð slíkra samninga og þátttöku hins opinbera í atvinnulífi þar. Að sjálfsögðu er óskastaðan í framtíðinni að íslensk búvöruframleiðsla, eins og annar atvinnurekstur, fái þrifist án stuðnings hins opinbera. Að sjálfsögðu er það markmið bændanna sjálfra og alla annarra.

Staðan er einfaldlega sú að stjórnvöld hafa í mörgum málum brugðist byggðunum. Þau hafa brugðist þeim á ýmsa vegu. Kvótakerfið og frjálst framsal veiðiheimilda fyrir 18 árum, árið 1989, kippti fótunum undan tilvist margra byggða. Það rústaði heilu landsvæðin afkomumöguleikum að stórum hluta og hafði mjög alvarleg og afgerandi áhrif á byggðaþróun í landinu.

Þá hefur stuðningurinn við landbúnaðinn í fyrsta lagi ekki verið nægjanlegur og engin umræða hefur átt sér stað um það meðal stjórnarflokkanna tveggja sérstaklega, hvernig eigi að koma þessum stuðningi fyrir í framtíðinni. Eins og ég sagði viljum við í Samfylkingunni styðja beint við bændur og við atvinnulíf á landsbyggð og í dreifbýli. Við teljum sjálfsagt mál að ræða það eins og önnur pólitísk viðfangsefni hvernig þeim stuðningi sé best fyrir komið.

Þróunin hefur verið sú að dregið hefur úr framleiðslutengdum stuðningi og stuðningurinn verið tengdur við aðra þætti framleiðslunnar. Segja má að byggðatengdur stuðningur hafi verið aukinn og framleiðslutengdur stuðningur verið minnkaður. Þessi samningur er þannig samsettur að hann er kannski 60% framleiðslutengdur og 40% búsetutengdur eða byggðatengdur. Það er mjög jákvæð þróun að mínu mati. Ég hef ekki áhyggjur af því að minni framleiðslutenging verði til að skaða greinina með neinum hætti heldur þvert á móti til að styrkja hana.

Ég held að við eigum að auka við byggðatengdan stuðning, almennan stuðning við atvinnulíf og nýsköpun í dreifbýli og sveitum án þess að afnema að fullu hinn framleiðslutengda. Ég held hins vegar að þróunin eigi að vera í þá átt og er þannig út um allt. Auðvitað eru önnur lögmál í öðrum löndum og misjafnt hvernig menn telja stuðningnum best fyrir komið. Hvernig honum verður best fyrir komið hér. Það gefur augaleið. Við búum við séríslenskar aðstæður.

Hér er harðbýlt að mörgu leyti og aðstæður til landbúnaðar oft erfiðar. Við verðum að taka tillit til þess. Það er stuðningur við það meðal þjóðarinnar og við jafnaðarmenn styðjum það heils hugar að tryggt sé að í landinu fari fram öflug og skynsamleg matvælaframleiðsla en að hún standi að sjálfsögðu sem sterkustum fótum þannig að þær greinar fái þrifist eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu, sem mest á frjálsum markaði þar sem samkeppnislögmálin virki og duglegir og öflugir framleiðendur fái notið sín o.s.frv.

En staðan er þannig, að hluta til út af kyrrstöðu og metnaðarleysi Framsóknarflokksins í byggðamálum, að það þarf að styðja byggðirnar beint og afgerandi. Þar þyrfti frekar að gefa í en að draga úr Það er ég algerlega sannfærður um.

Stjórnarflokkarnir hafa brugðist í mörgum þáttum á síðustu tólf árum, ekki síst á síðasta kjörtímabili. Það muna allir eftir Íraksstríðinu og eftir stuðningi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eða öllu heldur Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, við innrásina í Írak. Menn þekkja veru okkar á lista hinna vígfúsu þjóða.

Allir muna eftir fjölmiðlalögunum, þegar brjóta átti á bak aftur fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypu af því að hún var ekki þóknanleg stjórnvöldum og stjórnarherrum þeirra daga. (Forseti hringir.) Það fór nú sem fór.

(Forseti (RG): Forseti vill inna ræðumann eftir því hvort líkur séu á að hann ljúki brátt ræðu sinni eða hvort hann óski að gera hlé á ræðunni vegna matarhlés.)

Við skulum gera hlé, frú forseti.

(Forseti (RG): Þá óskar forseti eftir því við þingmann að hann haldi ræðu sinni áfram að loknu matarhléi.)