133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:00]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni og hann segir vissulega það sem rétt er. Menn verða að hafa úthald. Það er hárrétt. Hlutir af þessu tagi gerast ekki á einni nóttu. Við þekkjum það með sjávarútveginn og fiskinn. Menn fóru í þetta ferðalag þar fyrir 50, 60, 70 árum og Ísland hefur fyrir bragðið uppskorið ríkulega. Ég held að menn eigi að halda Áforms-sjóðnum eins og hann er. Fyrirtækin, sífellt sterkari, mjólkuriðnaður, sláturhús og afurðastöðvar verða að leggja fram þróunarfé á móti. Menn eiga að halda áfram á þessari braut. Í gegnum þessar lúxusverslanir, þar sem fólk biður um vörur frá landi sem skilar hollum og hreinum afurðum, eigum við að ná hæsta verði í heimi fyrir okkar afurðir. Það er gaman að vera í þessum búðum þegar bestu ostameistarar Bandaríkjanna segja að Höfðingi og Dímon séu bestu ostar heimsins. Þá roðna Frakkar. Það er líka gaman þegar þeir segja að íslenskt smjör, með karótínvítamíni úr grasinu og heyinu sem kýrin étur, sé fallegasta og besta bökunarsmjör heimsins. Svo koma ferðamenn út á þessi viðskipti og úr verða mikil viðskipti á mörgum sviðum við Ísland.

Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að setja okkur markmið. Ganga hægt og rólega fram eins og gert er. Á fimm til tíu árum getur með þeim hætti verið að bændur hafi verulega mikið út úr þessum mörkuðum og það verði þjóðinni mjög mikilvægt. Bændur þurfa virkilega á því að halda að auka frelsi sitt og stækka markaðinn. Þarna eru þeir að vinna Íslandi mikið gagn og ná tengslum við fólk sem kemur aftur og aftur til að heimsækja sveitirnar, dást að íslenskum landbúnaði og Íslandi.